Leita í fréttum mbl.is

Spilavíti á Íslandi

Umræðan um spilavíti á Íslandi er á villigötum.  Þetta mál þarf að snúast um að ná hingað erlendum gjaldeyri án þess að skapa hliðarvandamál tengdu spilafíkn.  Norðurlönd fara vitlaust að þessu þar sem þau veita ríkisborgurum sínum aðgengi að spilavítum og skapa þ.a.l. vandamál heimafyrir, á meðan Monaco, Malta og Nevada fara aðrar leiðir.  Er það ekki að ástæðulausu að þessi þrjú svæði banna aðgengi heimamanna að spilavítum og er það lykilatriði í þessu samhengi.  Fjárhættuspil auka á vanda heimilanna og ekki er á bætandi.

Aukning á milli 2007 - 2008Sem tekjuleið fyrir ferðaiðnaðinn eru spilavíti þó áhugaverður möguleiki. Þegar tölur Hagstofunnar um gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum 2003 – 2008 eru skoðaðar kemur fram að aukning erlendra ferðamanna var 3,0% á milli 2007 – 8.  Á sama tíma virðast heildartekjur hafa aukist til muna, eða um 45,5%, og tekjur á ferðamann um 41,3%.  Sé tekjutölur settar fram í USD (United States Dollar; $) og meðaltal árs (miðgengi) notað, er heildartekjuaukningin aðeins 3,7% og tekjuaukning á ferðamann 0,7%.  Sé svo ERI (Exchange Rate Index; gengisvísitala) notuð (hlutfall Bandaríkjamanna af heildarfjölda ferðmanna hefur dregist saman úr 14,7% 2003 í 8,6% 2008) er heildartekjuaukningin 3,4% og tekjuaukning á ferðamann 0,4%.  Hér bráðvantar tölur frá Seðlabanka og Hagstofu um tekjur af ferðamönnum fyrir 2009.

Segjum nú svo að spilavíti hefði verið rekið hér 2008 og að 1% ferðamanna eyddi aukalega því sem samsvaraði ISK (Íslenskar krónur) 100 þúsund, 5% 10 þúsund, og 10% 1 þúsund. Heildartekjuaukningin fer úr 45,5% 2008 í 47,0% og tekjuaukning á ferðamann úr 41,3% í 42,7%. Sett fram í USD fer heildartekjuaukningin úr 3,7% 2008 í 4,7% og tekjuaukning á ferðamann úr 0,7% í 1,7%. Sem viðmið af ERI fer heildartekjuaukningin úr 3,4% 2008 í 4,5% og tekjuaukning á ferðamann úr 0,4% í 1,5%. Tökum þá áhrif af aukningu ferðamanna inn í myndina.

Gefum okkur það að rekstur spilavítis hér hafi haft 5% aukningu ferðamanna til landsins í för með sér sem koma hingað gagngert í þeim tilgangi að eyða að lágmarki 100 þúsund í spilamennsku.  Í stað 472.535 ferðamanna fer fjöldinn í 496.162 og af þeim eru 23.627 spilarar í hæsta flokki.  Þar sem meðaltekjur á ferðamann voru ISK 156.215 en viðbótareyðsla lægri, breytist aukning úr 42,7% í 40,3% með ISK viðmið, 1,7% í 0,0% með USD viðmið, og 1,5% í -0,3% með ERI viðmið. Heildartekjur af ferðamönnum sýna þó stóru myndina.  Aukning heildartekna sett fram sem ISK fer úr 47,0% í 51,7, USD úr 4,7% í 8,1%, og ERI úr 4,5% í 7,8%.

Áhrif á útflutning & VFLSé þessum stærðum beitt á útflutning og landsframleiðslu hækkar aukning tekna af ferðamönnum gjaldeyristekjur af útfluttum vörum og þjónustu úr 11,0% í 11,1% og gjaldeyristekjur af VLF úr 5,0% í 5,1%. Sé 5% aukning ferðamanna sem hingað koma í þeim tilgangi að eyða að lágmarki 100 þúsund í spilamennsku bætt inn, nemur hækkun á gjaldeyristekjum af útfluttum vörum og þjónustu 11,4% og gjaldeyristekjur af VLF 5,2%.  Um þessi atriði snýst þetta mál.

Ofangreint er sett fram til þess að negla niður hvers vegna spilavíti getur haft góð áhrif á stöðu landsins sé þessu beitt til tekjuöflunar.  Takmarka þarf aðgengi að spilavítum þannig að erlent vegabréf þurfi til þess að stunda þar spilamennsku.  Aðgengi innlendra aðila að þessum stöðum hefur aftur á móti aukinn kostnað í för með sér og getur þar að auki haft neikvæð áhrif á þjóðfélagið s.s. fjárhagsstöðu heimilanna og aukinna útgjalda vegna aðgerða sem snúa að fyrirbyggjandi vörnum og meðferð gegn spilafíkn.

TÖFLUR

Tafla01Tafla02


mbl.is Sérstök lög þyrfti um spilavíti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Sjálfsagt skortir okkur flest annað en spilavíti á Íslandi. Við höfum verið að horfa upp á þessa hugsun braskara og annara viðskiptamanna sem létu greypar sópa um fjármuni þjóðarinnar og skilja allt eftir í rjúkandi rústum. Sparifé okkar sem erum á miðjum aldri og kannski rúmlega það, er svo til allur horfinn, alla vega í formi hlutabréfa. Þetta er sparnaður sem lagður var fyrir til að mæta elliárunum.

Umræða um spilavíti kemur samtímis upp þegar „Englar helvítis“ hyggjast koma ár sinni betur fyrir borð á Íslandi. Skyldi það vera tilviljun? Ætli við höfum ekki nóg af því góða að ekki sé bætt við einhverjum skuggalegum undirheimalýð.

Ein örlítil leiðrétting Snorri: Við sem erum í ferðaþjónustu tölum aldrei um „ferðaiðnað“ eða „ferðamannaiðnað“. Þau hugtök eru rökleysa nema átt sé við einhverja framleiðslu á einhverjum vörum t.d. prjónles til að selja ferðafólki. Þá á ferðamannaiðnaður vel við en ekki yfir þessa vaxandi atvinnugrein almennt.

Þessi meinvilla kemur væntanlega vegna þess að margir hugsa á ensku fremur en íslensku. Enska orðið „industry“ merkir margt, ekki aðeins iðnað heldur sitthvað sem tengist einhverri starfsemi eða þannig. Í því liggur þessi kórvilla.

Vænti eg að sem flestir átti sig á þessum mun. Hugsum ekki aðeins á ensku, heldur ekki síður íslensku.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 10.2.2010 kl. 16:36

2 Smámynd: Snorri Hrafn Guðmundsson

Takk fyrir leiðréttinguna með 'ferðaiðnaðinn', ég á það til að hugsa í amerísku. 

Það sem ég er fyrst og fremst að reyna að gera með þessari færslu er að koma spilavítishugmyndinni í ákveðinn farveg.  Ég óttast að farið verði sömu leið og Svíar og Danir og það væri efnahagslegt stórslys. Malta, Mónakó og Nevada hafa mun betri reglugerð sem snýr að þessu.

Svona til gamans:

"History has this example to support that gambling was around inAD when the King Olaf of Norway and King Olaf of Swedendecided upon the ownership of an isolated area of Hising bymaking use of a pair of dice. In this peaceful means of decision KingOlaf of Norway won the ownership of the area. Scandinavians are a very peaceful bunch 1020 !" Source

Ég hef raunar séð sömu sögu en þá lék Óli við munk og snerist dæmið um hvort Noregur skyldi taka kristna trú eður eigi. 

Snorri Hrafn Guðmundsson, 10.2.2010 kl. 18:32

3 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Mér finnst þetta engin spurning. Kýla á þetta. Aftur á móti vil ég heldur banna spilakassa á stöðum þar sem spilafíklar eiga leið um í leit að annarri þjónustu. Ég er ekkert svo viss um að það að leyfa aðgengi innlendra aðila í spilavíti sé slæmt, spilafíkill spilar einhverstaðar, spurning um að hafa það uppi á yfirborðinu.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 10.2.2010 kl. 19:15

4 Smámynd: Snorri Hrafn Guðmundsson

Adda, ég er 100% sammála þér þarna.

Snorri Hrafn Guðmundsson, 10.2.2010 kl. 19:28

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég get ekki ímyndað mér að útlendingar fari til Íslands til að spila í spilavíti þegar þeir geta farið margfalt styttri leið til að gera það í heimalöndum sínum.

Útlendingar koma samkvæmt skoðanakönnunum til Íslands til að sjá heimsfræga náttúru landsins og einhverjir kunna að hafa heyrt um skrautlegt næturlífið í Reykjavík.

Með því að hafa spilavíti hér er verið að lokka spilafíkla úr hópi erlendra ferðamanna til að eyða peningunum í annað en þeir ætluðu sér.

Þeir munu þá bara eyða minna fé í að kaupa hér aðrar vörur og þjónustu.

Mér finnst það ekki siðlegt að leggja slíkar snörur fyrir útlendinga þegar líklegast er að útgjöld þeirra hér muni bara færast til í stað þess að aukast.

Kostnaður íslensks samfélags af aukinni spilafíkn verður mun meiri en ávinningur af rekstri spilavítis.

Allar erlendar rannsóknir á neyslu fíkniefna benda til þess að því auðveldara sem er að nálgast þau, því meiri verður neyslan.

Spilafíkn er háð sömu lögmálum og hvert annað fíkniefni og besta dæmið höfum við nýlega upplifað þegar það lögmál gilti, að því auðveldara sem væri að fá lán, því meiri líkur væri á því að tekin væru lán langt umfram þarfir.

Ómar Ragnarsson, 11.2.2010 kl. 12:24

6 Smámynd: Snorri Hrafn Guðmundsson

Mjög góðir punktar, sérstaklega 'að útgjöld þeirra hér muni bara færast til í stað þess að aukast'.  Þá kemur hitt sem oft hefur komið upp þegar rætt er við erlenda aðila sérstaklega á markaðssviði tengdu ferðaþjónustu.  Hvar eru hinar svokölluðu 'tourist traps' eða ferðamannagildrur? Eina gildran sem ég veit af er landið sjálft, enda er sífellt verið að bjarga léttklæddum og vanbúnum ferðamönnum af jöklum.

Landslagið er ókeypis og þó þjónusta tengd því sé til staðar sýnist mér við vera að missa af tekjum vegna þess að ferðamenn geta komist af án þess að eyða neinu. Kaninn er snillingur í að ná fé að ferðamönnum en fer oft út í öfgar eins og Mount Washington sýnir:

"Little occurred on the summit itself until the mid-1800s, when it was developed into one of the first tourist destinations in the nation, with construction of more bridle paths and two hotels." Source

Þetta væri svipað því að byggja hótel á Hvannadalshnjúk.

Það sem ég er að einblína á varðandi spilavíti er leið til þess að auka eyðslu ferðamanna.  Mér finnst hún ekki nægilega mikil; það er allt of mikið ókeypis.

Ég er ekki frá því að Arctic Casino (þetta er raunar til en ég ætla samt að nota þetta nafn hér) gæti gengið ágætlega og þá sérstaklega á norðurlandi. Það getur fólk upplifað náttúrufyrirbæri sem þekkjast ekki í Evrópu eins og miðnætursól og hádegismyrkur sem lýst er upp af norðurljósum. Annað sem tengist spilavítum er efling skemmtanaiðnaðarins og fjölmargt annað sem hefur jákvæð áhrif.

Ég er enginn spilari sjálfur og hef séð afleiðingar spilamennsku á áætlanir heimila, en ég lít á þetta sem tekjuöflunarleið. Þetta gæti auk þess haft þau þau áhrif að sala á innlendar vörur aukist þar sem verslanir eru oft reknar innan spilavíta.  Lopavarningur merktur Arctic Casino gæti orðið vinsæll, innlend tónlistar- og kvikmyndaútgáfa gæti vakið athygli, og þannig fram eftir götunum.  Það er hægt að stilla þessu upp þannig að ímynd landsins laskist ekki, en sé danska og sænska leiðin farin er hætt við stórslysi á alla kanta.

Ástæða þess að útlendingar koma hingað til þess að sjá heimsfræga náttúru landsins er vegna þess að þetta hefur verið markaðssett. Gallinn er að náttúran er ókeypis sem gerir að verkum að maður er að sjá bakpokalið í tjaldi út um allt land sem eyðir nánast engu og skilar því litlu í þjóðarbúið. Ég vil ná öðrum hóp hingað sem hefur gaman að því að aðstoða við að byggja upp gjaldeyrisvarforðann okkar.

Snorri Hrafn Guðmundsson, 11.2.2010 kl. 13:37

7 Smámynd: Snorri Hrafn Guðmundsson

Var raunar að sjá þetta hér: http://www.statice.is/Statistics/Tourism,-transport-and-informati/Tourist-industry

'Tourist industry' heitið er gildi hér á landi. Annars var verið að keyra undirliggjandi liði inn á VDB vefgrunninn þar sem hægt er að skoða þetta frá ýmsum hliðum.

Tek fram að hægt er að kveikja og slökkva á liðum með því að smella á 'legend' punkt.

Snorri Hrafn Guðmundsson, 12.2.2010 kl. 15:28

8 Smámynd: Snorri Hrafn Guðmundsson

Tengillinn var eitthvað undarlegur, svo ég geri aðra tilraun: GÖGN

Snorri Hrafn Guðmundsson, 12.2.2010 kl. 15:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Snorri Hrafn Guðmundsson
Snorri Hrafn Guðmundsson
MBA í markaðsfræðum og greiningum frá Suffolk University, Boston (1997).

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband