Mánudagur, 4. maí 2009
Hugleiðið næsta skref vandlega
Eitt sem taka þarf til athugunar er hvaða áhrif þetta muni hafa. Vissulega er ástandið slæmt og ágætt ef hægt væri að leysa þetta með einföldum aðgerðum. Það er því miður ekki hægt. Þegar útlánastofnun veitir lán myndast skuld á móti (eða skuld er þegar til staðar sem svo er veitt lán út á sbr. innlán og útlán).
Erlendu lánin byggja á erlendri lántöku, innlendu á sparifé; semsagt það er krafa á lánastofnun á móti lánveitingu. Sé hætt að greiða af lánum fer íslenska bankakerfið alfarið á hliðina og við blasir allsherjarhrun. Þeir sem hafa í hyggju að fara þessa leið eru að steypa öllum beint á hvolf, ættingjum, vinum, samstarfsaðilum, afkomendum o.s.frv. Þetta er hættulegasta aðgerð sem hægt er að fara í og séu afleiðingar hennar bornar saman við ástandið nú má núverandi stöðu við góðæri.
Ég ætla ekkert að skafa utan af hlutunum, málið er of hættulegt:
Hugsanlegar afleiðingar
- Sparnaður sparifjáreigenda glatast eða ...
- ... ábyrgð ríkisins setur ríkissjóð á hliðina.
- Lánalínur lokast alveg.
- Fyrirtæki kollsteypast.
- Atvinnuleysi rýkur upp.
- Krónan fer í frjálst fall.
- Óðaverðbólga heldur innreið sína.
- Fasteignaverð hrynur niður í ekkert.
Aðrar afleiðingar eru þær að ímynd Íslands verður hræðileg sem eyðileggur framtíðar uppbyggingu og gerir að verkum að slæmt er að vera Íslendingur. Traust á landi og þjóð fer niður í ekkert.
Fari svo að takist að koma í veg fyrir ofangreindar afleiðingar, þá er afar líklegt að þeir sem geta greitt greitt af lánum en gera það ekki lendi í verulegum erfiðleikum þegar hagkerfið réttir aftur úr sér. Þessir aðilar muni ekki geta:
- fengið greiðslukort
- fengið lán eða fyrirgreiðslur
- eignast fasteignir
- stofnað fyrirtæki
Framtíðarhorfunar verða því fremur dökkar. Auk þess mun þetta setja takmarkanir á atvinnutækifæri erlendis þar sem t.a.m. Kaninn tekur hart á þessum hlutum:
Sýnishorn af ráðningarsamningi"Federal, state and self-regulatory organizations require that background checks be conducted in the financial services (i.e., securities, futures, foreign currencies) industry to determine whether or not an individual is statutorily disqualified to work in the financial services industry.""Within the past 10 years, have you made a compromise with creditors, filed a bankruptcy petition or been the subject of an involuntary bankruptcy petition?"
Mér sýnist greiðsluverkfall vera skammsýn aðgerð sem fyrst og fremst muni bitna á þátttakendum. Hagkerfið mun rétta úr sér aftur (nema fjármálakerfið hrynji alveg í kjölfarið) og aðilar sem taka þátt í þessari aðgerð geta komið sér í verri stöðu en í dag. Sé til tími að bíta á jaxlinn og berjast fyrir framtíðinni þá er það núna. Þetta á ekki við um þá sem geta ekki greitt lengur; aðeins þá sem geta það en neita. Það er grundvallarmunur á þessu tvennu. Hugleiðið því næsta skref vandlega.
Margir íhuga greiðsluverkfall | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Tenglar
Mínir tenglar
Ég
Viðskipti
- IceStat Market Intelligence Ráðgjöf og greiningar
- Myndrænn gagnagrunnur Frítt gagnasafn
- facebook Fréttaveita
- Twitter Fréttatilkynningar
- WordPress Á ensku
Tónlist
Frá antkind.com
Spurt er
Hvenær verður botninum náð?
Er spilavíti á Íslandi betri kostur en olíuhreinsistöð?
Athugasemdir
Þetta er býsna mikil einföldun. Í yfirtöku nýju bankanna á eignum þeirra gömlu var upphaflega gert ráð fyrir 50% afföllum, þótt eftir eigi að gera það upp og gæti orðið meira er upp er staðið. Allavega er ljóst að gert er ráð fyrir að erlendir lánadrottnar taki þann skell. Í öðru lagi eru vafasamar forsendur fyrir verðtryggingarþættinum í lánunum. Þær miða við neyslumynstur 2005-2007 og íbúðamarkað sem er frosinn (sem þýðir að markaðsverð er talsvert lægra en birtist í þeim fáu sölum sem fara fram). Þetta eru rök fyrir almennri lækkun verðtryggingarþáttarins sem myndi ekki valda neinni stórkostlegri röskun. Ábyrgðin er stjórnvalda að bregðast við en ekki þeirra sem í nauðvörn fara í greiðsluverkfall.
Kjartan Jónsson, 4.5.2009 kl. 00:47
Það þýðir ekkert að reyna að hræða fólk frá verkfalli, það hefur aldrei virkað í mannkynssögunni.
Pældu í þessum rökum; verkfall er skammsýn aðgerð sem mun ekki hækka laun né auka réttindi hjá þeim standa í því. það eina sem kemur út úr því er vinnutap sem mun bitna á launum þeirra sem fara í verkfall og setja fyrirtækin sem þetta fólk vinnur hjá á hausinn."
Ég held að sumt fólk sé bara ekki að fatta að greiðsluverkfall er hrein réttindabarátta skuldara.
Axel Pétur Axelsson, 4.5.2009 kl. 00:47
Sælir og þakkir fyrir inleggin.
"Allavega er ljóst að gert er ráð fyrir að erlendir lánadrottnar taki þann skell."
Afleiðing: Lánalínur lokast.
Varðandi verðtryggingarþáttinn þá er ég alveg fylgjandi því að skoða allar hugsanlegar leiðir sem leiða ekki til þess að skuldarar verði í verri stöðu en nú þegar hagkerfið réttir aftur úr sér. Ísland er lítið og viðsnúningur getur gerst hratt. Ég er með áhyggjur af því að um verulegt bakslag verði að ræða hjá þeim sem fara í greiðsluverkfall og dreg því upp allsvarta mynd af hugsanlegum afleiðingum.
"Ég held að sumt fólk sé bara ekki að fatta að greiðsluverkfall er hrein réttindabarátta skuldara. "
Fyrst þessi ágæti hópur er að líkja sér við verkalýðsfélag, hvers vegna ekki að setja upp slíkt félag, sameina allan skuldapakkann og dreifa afborgunum miðað við framlag? Slík eining gæti eflaust náð hagstæðari endurfjármögnunarsamningi en einstakir skuldarar þar sem margvíslegar hagræðingar eru þessu fylgjandi.
Greiðsluverkfall snýr annars á hinn veginn: vinnuveitandi neitar að greiða launin því hann telur þau of há.
Snorri Hrafn Guðmundsson, 4.5.2009 kl. 01:03
Eiga þessi atriði sem þú telur upp ekki frekar að vera á ábyrgð ríkisstjórnarinnar en skuldaranna í landinu?
Það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að taka þannig á málum skuldara að greiðsluvilji haldist.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 4.5.2009 kl. 01:13
"hvers vegna ekki að setja upp slíkt félag, sameina allan skuldapakkann og dreifa afborgunum miðað við framlag"
Þetta er hugmynd sem ég hef nefnt áður, reyndar var ég með hugmynd um að lífeyrissjóðirnir OKKAR fjármögnuðu þetta. Íslensk undirmálslán eru ekki mikils virði á almennum markaði, ég hef heyrt tölur 2-15% af höfuðstóli. Þetta gæti verið mesta kjarabót Íslandssögunnar :)
það er hinsvegar deginum ljósara að það eru engir OKKAR lífeyrissjóðir til, þeir eru reknir af geimverum frá öðrum hnöttum.
Axel Pétur Axelsson, 4.5.2009 kl. 01:19
Snorri Hrafn, í tæpa 14 mánuði hefur almenningur beðið þolinmóður. 14 mánuði! Á þessum tima hefur hann þurft að horfa upp á milljarða afskriftir skulda stjórnenda hjá Kaupþingi. Hundruð milljarða gjaldþrot fjárfestingafélaga, þar sem eigendur þeirra missa vissulega eignir en þurfa ekkert að borga til viðbótar. Kennitöluflakk þriggja banka og fjölmargra fyrirtækja sem kennitöluflakkararnir hafa keypt. Tvö fjárfestingabanka fá lán hjá ríkissjóði með 2% vöxtum. Hvað hefur verið gert fyrir almenning? Nánast ekki neitt. Algengast er að boðið er upp á lengingu lána, sem eykur heildargreiðsluna umtalsvert þegar um er að ræða verðtryggð lán, en mun vonandi koma þeim sem eru með hin ólöglegu gengisbundnu lán til góða. Nauðungarsölur hafa verið stöðvaðar tímabundið til 1. nóvember, en þvert á hvatningu hagsmunaaðila, þá halda aðfaragerðir áfram fram að nauðungarsölunni. Auk þess er þetta að því virðist ekki sjálfkrafa aðgerð heldur þarf skuldarinn að óska eftir henni. Vaxtabætur voru hækkaðar hjá þeim tekjulægri um allt að 30%, en allt að 500% hjá næsta tekjuhópi fyrir ofan. Peningurinn fyrir hækkun vaxtabóta er tekinn af tekjuskatti vegna innlausnar á séreignalífeyrissparnaði. Ég held að samanlagður kostnaðurinn af aðgerðum fyrir heimilin nái ekki einu sinni þeirri tölu sem afskrifuð var hjá eiginmanni fyrrverandi menntamálaráðherra vegna skulda hans við Kaupþing, hvað þá að þetta nái þeirri fjárhæð sem lögð var í Sjóð 9 til að bjarga andliti efsta manni á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður, Illuga Gunnarssyni.
Mér vitanlega hefur enginn aðili hvatt til greiðsluverkfalls, en margir hafa verið þvingaðir út í þá aðgerð vegna skilningsleysis kennitöluflakkaranna og stjórnvalda. Þá er ég að tala um þessi sömu stjórnvöld sem ætluðu að slá skjaldborg um heimilin. Hagsmunasamtök heimilanna hafa vakið athygli þessara aðila á því hvað gæti gerst, ef stór hópur skuldara hættir að greiða af lánum sínum. Þetta er það sem við köllum greiðsluverkfall. Við höfum ítrekar spurt hvað það þurfi stóran hóp til að hætta að borga svo menn átti sig á vandanum.
Hagsmunasamtök heimilanna eru ekki með óréttlátar kröfur, þegar þess er krafist að lánveitendurnir sem keyrðu hér allt í þrot, taki á sig byrðar til jafns við heimilin þegar kemur að lánum heimilanna. HH eru ekki með óréttmætar kröfur, þegar þess er krafist að heimilin í landinu eigi kost á sömu niðurfellingu skulda og starfsmenn Kaupþings eða fái sömu vaxtakjör og Askar Capital og Saga Capital. HH finnst með ólíkindum að FME og Seðlabankinn hafi ekki stöðvað í upphafi ólöglegar lánveitingar svikamyllubankanna og annarra lánastofnana með tengingu við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.
Mér finnst það göfugt af þér, Snorri Hrafn, að þú skulir hafa áhyggjur af því að lánalínur erlendis lokist. Heldur þú virkilega að einstaklingur sem á ekki til mat handa börnunum sína kæri sig ekki kollóttan um erlendar lánalínur. Auk þess lokuðust þær á haustmánuðum 2007 og þá stóðu flestir í skilum. Ef þú heldur að um 200 milljarða leiðrétting á skuldum heimilanna vegi þyngra í því að lánalínur lokist en 600 milljarðarnir sem fóru í að bjarga innistæðunum eða 224 milljarðarnir sem fóru í peningamarkaðssjóðina eða 270 milljarðarnir sem fóru í að bjarga Seðlabankanum eða 8.000 milljarðarnir af skuldum svikamyllubankanna, þá held ég að þú vaðir í villu.
Marinó G. Njálsson, 4.5.2009 kl. 08:48
Það sem þú telur upp er nokkuð rétt, áhrifin verða hrikaleg fari þessar 40 þúsund fjölskyldur, sem fjölgar ört, í greiðsluverkfall. Sumir hafa einfaldlega ekki getu til að greiða lengur. Það ætti því að vera mun meiri ástæða til að taka á málum þessa fólks. Ef ekkert verður að gert þá dregur þessi þjóðfélagshópur alla með sér í fallinu.
Flestar af þessum fjölskyldum hafa nýtt allar leiðir til að standa í skilum fram til þessa. Sumar fjölskyldur hafa hvorki vilja né getu til að standa undir þessum skuldum öllu lengur og á hraðferð í gjaldþrot.
Hver á að standa undir að greiða "sparnaðinn" (600 milljarða) sem ráðamenn létu "ríkið ábyrgjast". Á þjóðfélagið að standa og falla með þessum fjölskyldum sem "bankabraskarar" hafa komið í þá stöðu sem við blasir í dag. Það er komið að því að þeir sem "betur" eru staddir í þjóðfélaginu fari að gera sér grein fyrir því að það er ekki síður þeirra að taka á sig áföll þjóðfélagsins.
Páll A. Þorgeirsson 4.5.2009 kl. 09:01
Það er einmitt gott að kalla þetta greiðsluverkfall. Launþegar fara í verkfall til að sýna samstöðu, það þýðir ekki endilega að alli sem fara í verkfall geti ekki lifað af launum sínum. Stundum snýst verkfall um réttindi, ekki laun.
Greiðsluverkfall er réttindabarátta og það getur vel verið að fólk fari í greiðsluverkfall þótt það geti borgað af skuldum sínum og sé í fullkomnum skilum, bara til að sýna samstöðu. Þetta snýst um að láta ekki vaða yfir sig.
Viljum við lifa í skuldaeigendavænu landi ?
Axel Pétur Axelsson, 4.5.2009 kl. 09:38
Við verðum að byggja upp nýtt samfélag og ekki endurbyggja það gamla. Að bíta bara á jaxlinn og vona að við munum njóta þess þegar betur gengur er ekki boðlegt í mínum eyrum nema ég trúi því að við séum að byggja nýtt og betra samfélag. Ég er tilbúinn að taka á mig miklar byrðar til að landið komist út úr þessu en aðeins ef byrðunum er jafnt dreyft. Gerist ekki nein breyting lenda drápsklyfjar á þeim sem voru með stórt húsnæði miðað við tekjur (oftast barnafjölskyldur) og svo þeim sem misst hafa vinnuna, meðan að við hin fáum litlar aukabyrðar til að byrja með og síðan hrykalegar aukabyrðar þegar búið er að níða þetta fólk niður.
Samfélagið mun ekki lifa það af að reyna að draga 20-30 % þjóðarinnar í gegnum gjaldþrotaskifti af ýmsum gerðum.
Héðinn Björnsson, 4.5.2009 kl. 14:58
Ég veit alveg hvað menn eru að gagna í gegnum; varaði raunar bæði ríkisstjórn, bankana og fjölmiðla við þessi í mars 2006 að afleiðing útlána myndi hafa nákvæmlega þessi áhrif (Ástand fjármála heimilanna afleiðing vanþekkingar).
Mun ástandið batna? Líklega ekki; sömu aðilar eru í bönkunum og voru þar þegar þjóðin var skuldsett í botn (sbr. mönnun SPRON undir stjórn MP). Sama gildir um ríkisstjórn og lykilmenn í ráðuneytum. Ég held ég hafi pundað yfir 100 úttektum á þessa aðila sem skiluðu því að ég var álitinn neikvæður. Hvernig er svo staðan orðin? Það er ástæða fyrir því að ég tók ekkert lán á þessu tímabili, hvorki yfirdrátt né neitt annað sama hvað bankamenn og stjórnvöld sögðu um styrk hagkerfisins (er þó með námslán sem hefur tvöfaldast á stuttum tíma). Ég hreinlega treysti ekki þeim sem stjórna landinu og bönkunum og hef aldrei gert. Fjölmiðlar eru ekki betri, þó ég gefi Mbl. hæstu einkunn þar (sumir kunna að vera ósammála þessu, en þetta er mín reynsla).
Ég er þó á þeirri skoðun að núverandi stjórnvöld muni geta leyst úr þessu; hvernig hef ég þó ekki hugmynd um. Það gefur auga leið og stjórnvöld geta ekki látið þetta gerast því þá fer allt á annan endann. Það þarf að koma fastri umgjörð utan um þessa hreyfingu, því sameinað afl er alltaf sterkara en einstaklingar.
Ég er nokkuð sammála þessu með lífeyrissjóðina; þvertók raunar fyrir að greiða í lífeyrissjóð á sínum tíma og lenti í verulegum útistöðum við hið opinbera. Röksemdafærslan var sú að ég treysti þeim ekki að fara með fjármagn og það hefur reynst rétt.
Marínó, ég átta mig fyllilega á stöðunni. Það hefði mátt koma í veg fyrir þetta en var ekki gert. Nú situr stjórn landsins frammi fyrir því erfiða verkefni að forðast algjört hrun og þarf að stíga hvert skref með varúð. Við erum að takast á við alheimskreppu af versta tagi sem hugsast getur; það er ekki hægt að flýja neitt þar sem allt er að hrynja allsstaðar. Gjá hefur myndast milli almennings og stjórnvalda sem verður að brúa.
Eitt stærsta vandamál sem Ísland glímir við er að sömu aðilar og voru viðriðnir hrunið eru enn í lykilstöðum. Samhliða þessu kveða stjórnvöld að Íslendingar séu vel menntaðir og að nám sé af hinu góða. Legg til að þið athugið hverjir nýju sviðsstjórar bankanna séu, því þar finnið þið þá sem settu allt á hvolf. Hér sinna lögfræðingar markaðsstörfum, hagfræðingar greiningum, tölfræðingar hagfræðikennslu, markaðsfræðingar auglýsingagerð, og verkfræðingar fjármálum - er skrýtið að allt sé í rugli? Íslenska sérfræðingaflóran er kolvitlaust samsett (Was Iceland's crash inevitable?).
Mér finnst ágætt að fólk rísi upp til varnar; ég vil þó ekki að það komi í bakið á því. Greiðsluverkfall mun valda enn frekari rýrnun á eignum bankanna og skapa annað vandamál. Vissulega þarf að greiða úr þessari stöðu en ekki þannig að staðan verði verri eftir á. Ég ætla ekki einu sinni að þykjast vita hvernig eigi að takast á við þetta verkefni; þar eru aðrir betri. Raunin er þó þannig að sveiflutíðni íslenska hagkerfisins er hraðari þannig að viðsnúningur getur orðið nánast á augabragði.
Ég ætla að ítreka það sem ég sagði áður: þeir sem geta ekki greitt eru í rétti; þeir sem geta en neita eru það ekki. Það er grundvallarmunur á þessu tvennu.
Fyrst og fremst, við erum öll í þessu saman; það sem gengur yfir einn gengur yfir alla.
Snorri Hrafn Guðmundsson, 4.5.2009 kl. 15:18
En, Snorri, hvernig vilt þú leysa út greiðsluvanda heimilanna og fyrirtækja? Fólk með jafnvel þokkalegar tekjur er í vanda, hvað þá þeir sem eru tekjulægri.
Marinó G. Njálsson, 4.5.2009 kl. 17:06
Þarna sit ég einmitt fastur. Ég vil að sjóðir á borð við Nýsköpunarsjóð og Frumtak fari að dæla fjármagni út til þess að koma hlutunum aftur í gang. Þeir eru fastir í einhverjum undarlegum ferlum sem eiga engar stoðir í núverandi ástandi. Fjárfestingarstefnan sem báðir þessir sjóðir styðjast við hefur leitt til alheimskreppu, svo hana þarf að endurskoða.
Lausafjárstaða heimilanna er ægileg og staða fyrirtækjanna ekki betri. Það sem verra er, er að staða erlendra ríkja er einnig slæm sem dregur úr milliríkjaviðskiptum. Þeir sem eiga fjármagn liggja á því og gera þannig illt verra; það þarf að dæla fjármagni út í hagkerfið og koma fyrirtækjunum aftur í gang. Lífeyrissjóðirnir gætu vel komið að lausn mála með því að hreinlega auka eigið fé fyrirtækja sem komin eru í hættu og tryggja að þau verði áfram starfhæf þar til hagkerfið snýst aftur á réttan kjöl (sem gerist ekki nema fyrirtækin fari aftur í gang).
Þegar bankarnir réðust til atlögu gegn heimilum landsins með 100% lánum og annarri vitfirringu keyrðu þeir upp eignaverð langt umfram eðlileg mörk. Það var þarna sem ég vildi negla bremsurnar niður áður en við lentum í þessu, en það þýddi ekki að ræða við stjórnvöld, bankana, eða fjölmiðla á þeim tíma.
Það verður að koma fjármagni inn í hagkerfið, því fjármagn sem liggur kyrrt rýrnar í verði. Líka má fjármagni við vatn: ef það liggur of lengi hleypur ýlda í það og um síðir fer það að eitra út frá sér. Það er til fjármagn í landinu sem ekki er verið að nýta sem skyldi. Varaði bæði bankana og viðskiptaráðuneyti við hættum því fylgjandi að hafa ekki hlutlaust eftirlit með yfirtöku þeirra á fyrirtækjum, og nú eru að koma ýmsir hlutir í ljós sem getur gert stöðuna enn verri en áður. Það er ekki verið að hlusta nú frekar en fyrri daginn þrátt fyrir að hafa komið út í hagnaði árið 2008 með jákvætt eigið fé þegar allt hrundi hægri og vinstri (og er að lenda í verulegum hremmingum vegna stöðu fyrirtækjanna, sem er mitt lifibrauð).
Varðandi gjaldeyrislán þá er grundvallarforsenda skuldasöfnunar í einni mynt sú að hafa eignir í sömu mynt (eða tekjur og gjöld). Þarna má sækjast eftir leiðréttingu, enda um vítaverða viðskiptahætti að ræða af hálfu bankanna (svo ekki sé minnst á eftirlitsaðila og stjórnvöld). Bankarnir þykjast í dag veita ráðgjöf, en ég myndi ekki ráðleggja neinum að fara eftir þeirra ráðleggingum. Þeir hafa aldrei starfað fyrir almenning og munu ekki gera það heldur nú.
Það er hægt að koma ýmsum málum í gang, en ekki meðan legið er á fjármagni. Það verður að dæla því út, því það er að rýrna í verði engum til góðs. Hvert fyrirtæki sem fer í þrot veldur keðjuverkandi áhrifum sem auka verðmætarýrnun langt umfram þrotið sjálft.
Snorri Hrafn Guðmundsson, 4.5.2009 kl. 20:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.