Miðvikudagur, 6. ágúst 2008
Ástand fjármála heimilanna afleiðing vanþekkingar
Hefðu opinberar stofnanir grundvallar skilning á upplýsingamiðlun og vinnslu væri skuldastaða heimilanna ekki eins afkáraleg og hún er í dag, svo fjárhagsstaða þeirra skrifast á tæknistjóra viðkomandi stofnana sem og stjórnvalda. Síðasta yfirlýsing að hið opinbera hyggist nú fara í OpenSource búnað sýnir að skilningur aðila þar á bæ á tæknimálum er á lægra plani en jafnvel svartsýnustu menn hafa hingað talið.
Leiðandi aðilar sanna hversu lítil þekking er á hagkerfinu með afar óheppilegum ummælum í fjölmiðlum:
Mbl 31 mars 2008:
"Myndarleg styrking krónunnar í dag og hækkun hlutabréfa benda til þess að botninum sé náð, sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra í umræðum um efnahagsmál á Alþingi. Formaður Framsóknarflokksins, sem hóf umræðuna, bauð þjóðarsátt og þjóðstjórn til að forða þjóðarvoða."
Það lítur illa út að innlendir aðilar segi hagkerfið vera í lagi. Bankastjóri eins stærsta banka landsins sagði m.a. í viðtali við Markaðinn að botninum væri náð sem er þvert á það sem tölurnar gefa vísbendingu um. Myndi ég treysta þessum banka að taka skynsamlegar ákvaðarðir og fjárfesta í honum? Neibb, enda losaði ég mig við hlutabréf í honum í desember þegar ég sá að menn hafa ekki hugmynd hvað er að gerast og í kjölfarið gerðist þetta:
"Hnúturinn í maga fjárfesta hertist enn frekar í gær þegar bjallan í Kauphöllinni kvað við í lok dags: Úrvalsvísitalan hefur ekki verið lægri síðan í október 2005. Þegar litið er til gengisþróunar félaga í Úrvalsvísitölunni síðasta árið hafa sex félög náð sínu lægsta gengi: Atorka, Eimskipafélagið, Exista, Icelandair Group, Landsbankinn og Teymi. ... Fjármálafyrirtæki skipa Úrvalsvísitöluna að langstærstum hluta og því er eðlilegast að bera þróun hennar saman við aðra fjármálavísitölu."
ÚTDRÁTTUR FRÁ GREININGU MARS 2006
Það skortir alvarlega heildarmynd af hagkerfinu og er það alfarið á könnu stjórnenda ríkisstofnana að lagfæra. Ósamræmi er á milli gagnasafna og villur hvarvetna að finna (sem stofnanirnar taka ekki einu sinni eftir fyrr en þeim er bent á villurnar).
1. ÚTLÁN BANKAKERFISINS TIL FYRIRTÆKJA OG EINSTAKLINGA
Aukning útlána bankakerfisins til heimila og fyrirtækja hefur verið stöðug upp á við, en árið 2003 rjúka útlán upp úr öllu valdi. Í mörgum tilvikum er um geigvænlega há langtímalán að ræða.
Heildarútlán bankakerfisins til fyrirtækja 28. febrúar 2006 nam 1.292 miljörðum, en til heimila 577 miljörðum. 50.316 fyrirtæki voru skráð á landinu 31.12.2005 og 143.078 Íslendingar á aldrinum 25 59 (fólk utan þessa ramma er ekki líklegt til þess að sækja um eða fá langtímalán). Þessar tölur sýna að skuldir fyrirtækja eru 25,7 miljónir á fyrirtæki og 4,0 miljónir á mann.
Gæti Hagstofan veitt greinargóðar upplýsingar um fjölda heimila í stað einstaklinga eftir heimilistegund yrði eftirleikurinnað ná fram skuldsetningu heimilannamun auðveldari. Því er þó ekki að skipta frekar en hjá öðrum ríkisstofnunum.
2. SKULDIR OG VELTA FYRIRTÆKJA Í BYGGINGARIÐNAÐI
Þegar taka á út skuldsetningu atvinnugreina kemur fram ósamræmi í grunnum Seðlabanka (sem fylgir ekki ÍSAT atvinnugreinaflokkun) og Hagstofu. Þetta gerir greiningarvinnu erfiða og dregur úr gegnsæi. Þetta kemur þó ekki að sök þegar verið er að skoða byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Hlutfallslega hefur verið mest aukning í útlánum til fyrirtækja í þessum geira og skyldi engan undra. Samkeppnin við Íbúðalánasjóð er bein ástæða þess að þessi mikla aukning á sér stað.
Eins og sést á bæði grafi og töflu er byggingariðnaður að fjármagna sig að langmestum hluta á yfirdráttarlánum sem bera hæstu vexti. Þessi félög eru auk þess með stóran hluta skuldanna í gengisbundnum skuldabréfum sem gerir þau viðkvæm fyrir sveiflum á gjaldeyrismarkaði. Þar á ofan bætast við verðtryggðu lánin sem miðast við verðbólgu. Útlit er fyrir að öll þessi lán hækki verulega á næstunni, m.a. vegna vaxtahækkana Seðlabanka, og fer þá alvarlegt ástand að skapast á fasteignamarkaði.
Velta félaga í byggingariðnaði 01.07.2005 - 31.10.2005 mælist 29,5 miljarðar, sem setur mánaðarveltu fyrirtækis í kringum 4,3 miljónir. Sú upphæð er tæplega helmingur yfirdráttarlána sem bera hæstu vexti, svo spurningin er hvenær þessi félög fara að lenda í greiðsluerfiðleikum og þurfa á endurfjármögnun að halda.
Bankarnir hafa farið heldur óvarlega í lánveitingar til fasteignakaupa og fyrirtækja tengdum fasteignamarkaði sem mun hrista hagkerfið innan tíðar. Veiking krónunnar og hækkun vaxta auk verðbólgu leiðir til þess að fasteignamarkaðurinn kemst í uppnám.
3. SKULDSETNING HEIMILA
Til þess að ná fram skuldsetningu heimilanna þarf að ná fram heildarfjölda heimila á landinu. Hagstofan birtir þessar upplýsingar ekki beint, heldur veitir þess í stað upplýsingar um fjölda einstaklinga eftir heimilistegund. Þetta er afar óþægilegt og þarf að laga. Skv. Íslandspósti, sem veitir mun betri upplýsingar um þennan málaflokk (enda um einkafyrirtæki að ræða), eru 109.581 heimili á landinu. Með tengingu milli gagna Seðlabanka og Íslandspósts kemur fram að hvert heimili skuldar að meðaltali einn Landscruiser jeppa.
Sett í samhengi við tekjur eftir atvinnugreinum og atvinnuþátttöku kemur í ljós að 61,5% landsmanna hefur innan við 240 þúsund krónur í laun á mánuði. Séu heildarútlán bankakerfisins til heimila 28. febúar 2006577 miljarðardreift yfir 80%, 60%, og 40% heimila, má sjá hvernig skuldsetning heimilis breytist.
Með bensínlítrann við 120 krónur kostar 7.200 krónur að fylla hefðbundinn bíl. (m.v. 60 lítra bensíntank). Hvernig gætu heimilin verið að fjármagna sig (hér þarf samhæfingu á gögnum Seðlabanka og Hagstofu)? Þróun verðtryggðra skuldabréfa stendur í bókstaflegri merkingu upp úr. Að öllum líkindum eru 40-60% heimila skuldsett i botn.
4. VÍTAHRINGUR AÐ MYNDAST
Þegar upplýsingar ríkisstofnana eru keyrðar saman kemur fram mynd af hagkerfinu sem erfitt er að sjá nema með greiningartækjum sérsniðnum að upplýsingavinnslu. Með þannig tækjabúnaði má stilla upp líkönum sem taka á ákveðnum þáttum innan hagkerfisins, sérstaklega samspili mismunandi þátta á heildarmyndina. Skv. undangenginni hagkerfisgreiningu er landið komið inn í eftirfarandi vítahring:
- Vextir eru hækkaðir þannig að einstaklingar geta ekki staðið við afborganir af lánum og þurfa að minnka við sig. Þetta veldur falli fasteignaverðs sem í svona litlu hagkerfi mun gerast hratt verða mikið. Eftir stendur fólk með verðminni eignir og miklar skuldir.
- Bankarnir eiga á hættu sitja eftir með afar kostnaðarsama eign: íbúðarhúsnæði. Þar sem útlán gegn veði í fasteignum hefur skekkst í kjölfar lækkunar fasteignaverðs, lækkar verðmæti hlutabréfa bankanna vegna hækkunar afskriftareiknings útlána. Bankarnir verða að losa sig við fasteignir til þess að viðhalda eigin lausafjárstöðu og mæta afborgunum eigin lána. Sala íbúða fer undir markaðsverð sem fellir fasteignaverð enn lengra niður.
- Byggingaverktakar fá ekki greitt vegna greiðslustöðu lántakenda (heimila) og lenda í vandræðum með eigin afborganir lána sem að mestu leyti eru yfirdráttarlán á hæstu vöxtum. Tvöföldun fyrirtækjafjölda í byggingariðnaði gengur að einhverju leyti til baka og atvinnuleysi hefur fjallgöngu sína með áhrifum á aðra geira og þannig koll af kolli.
- Upplausnarástandið og rýrnun fasteignamarkaðar hefur áhrif á krónuna sem fellur enn frekar. Seðlabankinn lítur á neistana sem byrjaðir eru að glóa í sverðinum og ákveður að dæla bensíni yfir allt saman með því að hækka vexti. Hringurinn hefst á nýjan leik.
Því miður hafa tækifærin sem áttu að myndast þegar bankarnir voru einkavæddir lítið látið á sér kræla. Nýsköpun í landinu er álíka auðveld og að ferðast berfættur yfir hraunbreiðu, og vísa einkaðilar og ríki hver á annan þegar kemur að fjármögnun. Bankarnir eru jafn stefnulausir og ríkið og reyna að blása sig upp með því að þenja út efnahagsreikningana á meðan þeir eru jafn ófærir og stjórnvöld að sjá afleiðingar þess sem þeir eru að gera. Einkavæðingin hefur haft neikvæð áhrif á nýsköpun sérstaklega á sviði hugbúnaðarþróunar. Ríki og stórfyrirtæki (á íslenskan mælikvarða) eru bæði sek um að þenja út eigin tölvudeildir á kostnað hluthafa og almennings.
Einkavæðing bankanna hefur valdið því að eignakeðjur myndast þar sem fjármagn hleypur í hringi án þess að fara út í atvinnulífið að neinu ráði. Væri ráðlegt að skoða hvort bönkum (eða stærstu eigendum banka) ætti að vera óheimilt að eiga ráðandi hlut í öðrum fyrirtækjum þar sem slíkt kallar á óeðlilega viðskiptahætti. Innlendu bankarnir eru ekki að hjálpa fyrirtækjum og almenningi að blómstra heldur hyggjast eignast allt sem hægt er að eignast, sem er einmitt það sem mun koma þeim um koll og draga hálft hagkerfið með sér. Ráðstefnur á borð við 'First Iceland Business and Investment Roundtable' mun ekki styrkja gengið þar sem enginn ráðstefnuhaldara hefur tækin til þess að sjá hvert stefnir í raun og veru. Þekking er máttur, allt annað ágiskanir.
5. HVAÐ VELDUR ÞVÍ AÐ ÞESSI STAÐA ER KOMIN UPP?
Stjórnvöld hafa sýnt og sannað að þau eru ófær um að stjóra þessu landi skynsamlega. Takmarkað gegnsæi er í ríkisfjármálum og er þar helst um að kenna ríkisvæðingar í tölvutengdri starfsemi. Í stofnun og rekstri hins svokallaða Upplýsingasamfélags hefur ríkið tekið hreint fáránlega stefnu. Gerð var fyrirspurn til Upplýsingasamfélagsins s.l. desember varðandi sundurliðun fjárframlaga í upplýsingatengd verkefni. Fyrsta svarið var að engin leið væri að framkvæma slíka úttekt. Svo, þegar samstarfsmaður undirritaðs tók upplýsingar saman úr Fjárlögum, og sendi inn til staðfestingar var svar stjórnanda Upplýsingasamfélagsins orðrétt: "Ég hef ekki tök á því að fara yfir þetta."
Það er ekki steinn yfir steini hvernig upplýsingamálum er háttað innan ríkisgeirans, sem gerir það að verkum að erlendir aðilar treysta engu sem kemur frá þeim. Villur og ósamræmi má finna í nánast öllum gögnum. Ein stofnun birtir upplýsingar sem á engan hátt samræmast öðrum. Má á einum stað taka út mannfjölda og fyrirtækjaupplýsingar eftir póstnúmeri eða landshluta, en svo hægt sé að tengja þær tölum annarra stofnana fer allt á annan endann þar sem uppsetningin er gerólík. Svo kemur þriðja stofnunin með eigin uppsetningu sem vinnur ekki með hinum tveimur. Það er ekki skrýtið að stjórnvöld ráfi um eins og hauslaus hæna sem týnt hefur eggjunum sínum.
Yfirlýsingar stjórnvalda um stöðu hagkerfisins eru marklausar. Það er enginn innan ríkisins með heildarmyndina af hagkerfinu, heldur bauka stofnanir hver í sínu horni og sóa óheyrilegum upphæðum í innri þróun á hugbúnaðarlausnum með mannaráðningum og kaupum á erlendum kerfum. Allt á þetta sameiginlegt að koma í veg fyrir að heildarmynd náist af hagkerfinu. Stofnanir eru að bæta við sig mannskap í upplýsingadeildir í stað þess að fá búnað sem gerir frekari mannaráðningar óþarfar. Flestar stofnanir eru að byggja upp kerfi með því að beita tækni sem er á leiðinni út; engin þeirra mun ljúka þeirri þróun á næstu árum.
Réttast væri að einkavæða Hagstofuna og setja allt undir einn hatt. Í höndum einkaaðila mun nást fram verulegur sparnaður, og skilvirkni aukast. Efling hagkerfisins fylgir í kjölfarið sem og fullkomið gegnsæi.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 22. júlí 2008
Heildarskuldir heimilanna júní 2008
Verðtryggð lán heimilanna dragast saman um 2,89% á milli mánaða á meðan gengisbundin lán aukast um 10,24%. Í raun má nota þetta sem einskonar mælikvarða á hversu vel landinn treystir krónunni:
A. Treysti hann henni tekur hann erlent lán á lægri vöxtum.
B. Treysti hann henni ekki velur hann verðtryggt lán á innlendum ofurvöxtum.
Þegar um langtímalán er að ræða flækist málið. Röksemdafærslan hingað til hefur verið þessi: "Viltu frekar borga hærri vexti eða lægri?"
Sé áhugi fyrir lægri vöxtum, þá liggur leiðin í gengisbundið lán. Þetta er skammtímarökfræði sem er vafasöm, einkum í ljósi þess að þegar þessi lán eru tekin er krónan sterkari en nokkru sinni fyrr og vextir himinháir.
Þegar litið er á stöðuna finnst manni líklegt að krónan veikist og vextir verði lækkaðir á lánstímabilinu, jafnvel svo verulega að höfuðstóll erlendu lánanna sem talin voru hagkvæm margfaldist.
Hjá fyrirtækjum aukast verðtryggð lán um 9,00% á milli mánaða á meðan gengisbundin lán aukast um 15,01%.
Veitufyrirtæki (rafmagn, orka, og vatn) draga úr gjaldeyristengdum lánum en auka verðtryggð.
Yfirdráttur landans gefur tilefni til aukinnar bjartsýni, en hann dregst saman um 7,78% á milli mánaða. Sem hlutfall af heildaryfirdrætti eykst hann um 11,38%, en það táknar að atvinnulífið er að taka eigin fjárhag föstum tökum og losa sig við há vaxtagjöld.
Nú þurfa heimilin að losa sig við yfirdráttinn og draga úr greiðslukortanotkun og þá ættu fjármál heimilanna að komast í lag. Til þess þurfa bankarnir að koma til móts við viðskiptavini sína á einn eða annan hátt því það er ekki þeim í hag að missa viðskiptavini vegna óyfirstíganlegra fjármálaörðugleika sem þeir sjálfir eiga einhverja sök á að hafa skapað.
Heildarstaða útlána sýnir að fyrirtækin eru að stórauka lántöku. Þetta þýddi eitt sinn að útrásin væri í fullum blóma, en nú táknar þetta að öllum líkindum að þau berjist í bökkum.
Aukning á lántökum fyrirtækja mælist 12,46% a milli mánaða en aðeins 0,69% hjá heimilum (breyting á hluta þess sem flokkast undir íbúðalán mælist -3,67%).
Þetta eru áhugaverðir tímar fyrir þá sem hafa gaman af því að velta talnarunum fyrir sér, en líklega miður skemmtilegir fyrir marga aðra.
Skuldir heimila breyttust lítið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 25.7.2008 kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 18. júlí 2008
Fjárfestingarhalli
Eins og sést ríkir fjárfestingarhalli á landinu. Meira fé streymir út en kemur inn. Sú þróun fer að snúast við, enda búið að opna greiða leið fyrir erlenda fjárfesta að skoða innlendan markað auk þess sem gengi krónunnar býður þeim afsláttarkjör. Það má spyrja sig að því hversu viturlegt sé fyrir innlenda fjárfesta að dæla fé úr landi í stað þess að byggja upp sterkt atvinnulíf innanlands. Lífeyrissjóðir ættu sérstaklega að taka til athugunar hvernig fé sjóða á einkamarkaði sem þeir fjárfesta í sé varið, því ef stór hluti áhættufjárfestinga fer erlendis brýtur það niður innlenda atvinnusköpun.
Graf tvö sýnir hvernig innlendur markaður lítur út fyrir erlenda aðila. Sé fasteignamarkaðurinn tekinn sem dæmi, er ódýrara fyrir þá að kaupa sér fasteign hér nú en þegar krónan var sem sterkust. Þetta ætti að valda auknu innstreymi fjármagns og fara fjölmiðlar þá væntanlega að tala um innrásir í stað útrása.
Útskýringar á grafinu hér við hlið:
Græn lína. Gengi EUR/ISK.
Blá súla: Meðalsamningsupphæð á fasteignamarkaði höfuðborgarsvæðisins.
Rauð lína: Samningsupphæð snúið í EUR á gengi dagsins í dag (Today's rate).
Blá lína: Samningsupphæð snúið í EUR á gengi dagsins sem samningsupphæð er birt (Same day rate).
Fjárfesting erlendis aldrei verið meiri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 15. júlí 2008
Kortavelta júní 2008
Aukning debetkortaveltu milli mánaða mælist 2,65% en kreditkorta 5,56. Þetta viðbótarmælikvarði við raunvirðisútreikninga þar sem það gefur beina vísbendingu um stöðu fjárhags heimilanna. Aukist kreditkortavelta jafnt og þétt umfram debetkortaveltu segir það til um minnkandi ráðstöfunarfé sem aftur kemur inn í vanskilahlutfall FME.
Uppsöfnuð aukning á debetkortaveltu frá janúar 2001 mælist 106,76% en á kreditkortaveltu 118,37%. Uppsöfnuð kreditkortavelta sker debetkort í september 2007 (skaust yfir í janúar 2007 vegna jólainnkaupa).
Þessi mælikvarði gefur sterka vísbendingu um lausafjárstöðu heimilanna. Til þess að átta sig á hversu geigvænleg þessi þróun er, þá ber að geta að uppsöfnuð aukning á debetkortaveltu frá janúar 2001 til júní 2006 mældist 45,06% en á kreditkortaveltu 21,59%.
Hlutfall debet- og kreditkortaveltu af heildar kortaveltu sýnir hversu hættulegt ástand er að skapast. Hlutfall debetkorta (55,46%) lækkar óðfluga á meðan kreditkortin (44,54) sækja í sig veðrið. Í júní 2006 mældust debetkort 64,27% af heildar kortaveltu en kreditkort 35,73%.
Samanburður á milli ára sýnir vel hversu hlutfall debetkorta af heildar kortaveltu dregst saman. Eru allar líkur á því að gildin fyrir 2008 (fjólublár stöpull) fari vel undir 2007 (grænn stöpull).
Á sama hátt sést hröð aukning kreditkorta vel þegar mánuðir eru bornir saman.
Samdráttur í greiðslukortaveltu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tenglar
Mínir tenglar
Ég
Viðskipti
- IceStat Market Intelligence Ráðgjöf og greiningar
- Myndrænn gagnagrunnur Frítt gagnasafn
- facebook Fréttaveita
- Twitter Fréttatilkynningar
- WordPress Á ensku