Leita í fréttum mbl.is

Er verðbólga ómarktæk?

"Miklu alvarlegra er þó að nefndin vinnur eftir röngum upplýsingum um verðbólguna,“ segir í Vísbendingu. Í rökstuðningi nefndarinnar sé miðað við tólf mánaða verðbólgu aftur í tímann í stað þess að miða við verðbólguna eins og hún er í dag. Skautað sé yfir þá staðreynd, eins og hún skipti engu, að vísitala neysluverð lækkaði í mars. Hlutverk nefndarinnar sé ekki að taka saman sögulegar upplýsingar heldur taka vaxtaákvörðun sem geti haft afgerandi áhrif á þróun efnahagslífsins um langa framtíð."
 
Man einhver þegar athugasemdir voru gerðar varðandi verðlagsmælingar?  Þá fól þáverandi viðskiptaráðherra Neytendastofu og Hagstofu að lagfæra ástandið.  Hægt er að vera með hlaupandi vísitölu sem tekur mið af magntölum, en slíkt gerir körfur Hagstofunnar óþarfar. Eftir fund með Neytendastofu var málið kæft og engin frekari viðbrögð þaðan þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir að ná tali af forsvarsmönnum Neytendastofu.
 
Sent á Neytendastofu 18.9.2007 (útdráttur)
[Þessi aðferðarfræði] gerir Neytendastofu kleift að hafa hlaupandi verðlagsvísitölu auk þess sem líkön byggð á grunnupplýsingum uppfærast í rauntíma.  Meðalgildi vöruverðs reiknast sjálfkrafa um leið og nýjar upplýsingar berast, sem veitir ekki aðeins dagsverð heldur verðsveiflu innan dags.  Nákvæmni rauntímamælinga á verðlagi er mun meiri en sé aðeins tekið tillit til dagsstöðu.
 
Samtök atvinnulífsins tóku betur í þetta, en verkefnið var því miður ekki á þeirra könnu, ellegar værum við hugsanlega í dag með rauntíma verðlagsmælingu. Þegar ekkert gekk að ná tali af Neytendastofu var haft beint samband við viðskiptaráðherra (sem vitað var að yrði tilgangslaust):
 
Sent á viðskiptaráherra 5.11.2007
"Neytendastofu [var] á fundi 23. ágúst kl. 13:30 [kynnt] tæknilega útfærslu á rafrænum neysluverðskönnunum.  Síðan hefur ekki heyrst neitt frá Neytendastofu, þrátt fyrir ítrekuð skilaboð."
 
Ekki sinnt frekar en endranær. Hvaða áhrif hefur þetta á skuldsett heimili og fyrirtæki?  Jú, hærri afborganir sem eiga ekki rétt á sér þar sem verðbólga er lægri en Hagstofan segir.  Ástæða: magntölur (semsagt breytingar í kauphegðun) koma ekki inn.  Svo aðilar sem eiga sök á afborgunum ykkar eru:
 
  • Hagstofa Íslands
  • Viðskiptaráðuneytið
  • Neytendastofa
 
Ég get ekki beðið eftir að opnað verði fyrir persónukjör.  Er alvarlega að velta fyrir mér að stíga fram og sjá til þess að hreinsað verði út úr bæði opinberum stofnunum og fjármálafyrirtækjum. Í dag eru Íslendingar að greiða of háar afborganir af lánum eingöngu vegna þess að aðilar sem starfa eiga fyrir fólkið gera það ekki.  Ég tel að verðbólga sé allt að því 5% lægri en karfa Hagstofunnar segir til um og er það varlega áætlað. Rauntímamæling með samtengingu kassakerfa gerir eftirfarandi óþarft með öllu:
 
Þessi aðferðarfræði var ágæt áður en háhraðanet komu til sögunnar og er fullkomlega úrelt.
 
Aftur úrelt aðferðarfræði.  Var ekki verið að tala um að draga saman í ríkisútgjöldum?  Besta leiðin til þess er að uppfæra tæknistig stofnana sem sjá um svona rannsóknir. Vek athygli á að rannsóknin var gerð fyrir 2007 - tveimur árum fyrir hrun - en gefin út 10. desember 2008! Tilvitnun úr þessu skjali:
 
"Megintilgangur rannsóknar á útgjöldum heimilanna er að afla upplýsinga sem notaðar eru til að útbúa útgjaldagrunn fyrir vísitölu neysluverðs. Neysluverðsvísitalan hefur mikla þýðingu í efnahagslífinu. Hún er helsti mælikvarði á verðbólgu og er notuð til að reikna út kaupmátt o.fl. Hún er auk þess notuð til að verðtryggja fjárskuldbindingar. Útgjaldasafnið sem vísitalan nær yfir tekur til þeirra útgjalda sem snerta heimilisrekstur og daglegt líf fólks. Til þess að meta áhrif einstakra verðbreytinga á hækkun vísitölunnar þarf upplýsingar um hve mikið vægi hver vara og þjónusta hefur í útgjöldum heimilanna. Þær upplýsingar fást úr rannsókn á útgjöldum heimilanna. Niðurstöðurnar eru einnig notaðar við önnur verkefni svo sem hag- og markaðsrannsóknir."
 
Mesta furða að Hagstofan skuli ekki nota hamar og meitil eins og gert var í denn. Skv. skjalinu eyðir meðalheimili 725.000 í ferðalög og flutninga, 558.000 í tómstundir og menningu, og 209.000 í fatnað.  Þessar tölur eru notaðar við verðbólgumælinguna sem er alveg út af kortinu.
 
VNV eins og hún er mæld í dag er því ómarktæk þar sem hún tekur ekki inn neyslumynsturbreytingu um leið og hún á sér stað.  Ef fólk vill stunda friðsamleg mótmæli einhversstaðar, þá mæli ég með Borgartúni 21a.  Hagstofan stuðlar að því að heimili og fyrirtæki eru að fara í þrot því hún vinnur of hægt og þverskallast við að koma sér í nútímann.

mbl.is Ófagleg ákvörðun um vexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Spurningin er: Hvað er verðbólga? Eflaust eru til nútímalegri aðferðir, og jafnvel nákvæmari, til þess að mæla vísitölu neysluverðs en það breytir því ekki að fyrirbærið verðbólga er skýrt skilgreind í hagfræðinni og sú hugmyndafræði sem unnið er eftir í seðlabönkum heimsins (öllum þeim seðlabönkum sem hafa verðlagsstöðugleika sem meginmarkmið) byggir á þeirri skilgreiningu.

Þú mælir ekki verðbólgu öðruvísi en aftur í tímann, enda er allt annað spámennska og í besta falli ágiskanir.

Guðmundur Sverrir Þór, 3.5.2009 kl. 08:02

2 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Frábær grein Snorri.

Guðmundur, þetta er kjarni málsins, aðrir seðlabankar eru að mæla verðbólgu á heilu ári til að mæla sveiflur og stöðugleika í hagkerfi. Enginn þeirra notar þessar mælingar til að ákvarða vísitölu á skuldir heimila og fyrirtækja. Þetta er sérstaða Íslands. Ef verið er að mæla breytingar á ástandi sem er á fleygiferð er beinlínis kolrangt að mæla þær á löngum tíma og rukka eftir röngum forsendum. Ástandið í dag er allt annað en fyrir ári bæði hvað varðar eignaverð og neyslu. Þetta er eignaupptaka þegar notast er við mælingar á ástandi sem var í öðrum veruleika.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 3.5.2009 kl. 09:02

3 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Adda: Þú mælir ekki verðbólgu á nokkurn annan hátt en að miða við einhvern punkt í fortíðinni og almennt er notast við 12 mánaða verðbólgu til þess að losna við skekkjandi áhrif árstíðnasveiflna. Verðbólga er skv. skilgreiningu hækkun verðlags yfir einhvern ákveðinn tíma og ef þú ætlar ekki að miða við fortíðina þá er ekki um annað en spár að ræða.

Hvað varðar verðtryggingu lána þá er það allt annar hlutur. Sem blaðamaður/hagfræðingur á viðskiptablaði Morgunblaðsins skrifaði ég mikið gegn verðtryggingu, allt frá árinu 2004 þegar ég flutti til Íslands úr námi. Verðtryggingin er hins vegar ekki verk Hagstofunnar og það er ekki við hana að sakast. Ég fæ ekki heldur séð hvaða áhrif það myndi hafa á verðbólgumælingar að gera þær rafrænt. Ekki nema þá að verslanir hafi þann háttinn á að lækka verð þegar vitað er að von er á fulltrúum Hagstofunnar. Þá myndi verðbólgan hins vegar hækka við rafrænar mælingar.

Guðmundur Sverrir Þór, 3.5.2009 kl. 13:49

4 Smámynd: Snorri Hrafn Guðmundsson

Guðmundur, Adda, kærar þakkir fyrir innleggin.  Aðeins til útskýringar varðandi "Þú mælir ekki verðbólgu öðruvísi en aftur í tímann".  Nákvæmlega, það það viðmiðunarpunkta, en þessa viðmiðunarpunkta er hægt að fylgjast með í nær-rauntíma.  Viðskiptakerfi verslana eins og Bónus og Krónunnar eru samtengd.  Það er hægðarleikur að láta þessi kerfi senda upplýsingar beint til Hagstofu og ná þannig fram hvað eru neytendur raunverulega að versla miðað við ástandið eins og það er í dag.  Karfan breytist þá í takt við raunverulega kauphegðun og birtir VNV sem endurspeglar hana, ekki kauphegðun annars tímabils.

Vitanlega þurfa leiðandi aðilar og aðrir að koma að þessu, því uppstilling er viðamikil (aðal hausverkurinn er strikamerkingin sjálf, en sama varan getur haft ótal strikamerki). Þegar því er lokið getur svona kerfi keyrt að miklu leyti sjálfvirkt. Upphafskostnaður er því talsverður, en skilar því að við verður með nákvæmari VNV en þekkist annarsstaðar.

Það er annar kostur þessi fylgjandi sem kemur beint inn á skuldir einstakra heimila. Það er þó of langt mál að fara í það hér. Ég vann við SABRE verkefnið á sínum tíma þar sem ferðaskrifstofur, bílaleigur, hótel, og flug var allt bókað á einum stað, þannig að þetta er allt framkvæmanlegt. Það var árið 1997, semsagt fyrir meira en áratug.

Vil svo taka fram að ég er ekki að gagnrýna starfsfólk Hagstofunnar, heldur fjárveitingar til hennar svo auka megi tæknistig stofnunarinnar. Það er mikið rætt um hversu greindir, vel menntaðir, og útsjónarsamir Íslendingar eru. Hvernig væri að nýta þá sérþekkingu sem til er í landinu og lyfta aðferðarfræði VNV mælinga á æðra stig?

Snorri Hrafn Guðmundsson, 3.5.2009 kl. 13:52

5 Smámynd: Snorri Hrafn Guðmundsson

"Ekki nema þá að verslanir hafi þann háttinn á að lækka verð þegar vitað er að von er á fulltrúum Hagstofunnar. Þá myndi verðbólgan hins vegar hækka við rafrænar mælingar."


Málið er að það yrðu engir fulltrúar; þetta væri sjálfvirkt.

Snorri Hrafn Guðmundsson, 3.5.2009 kl. 14:06

6 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Þú getur fylgst með í nær-rauntíma og þú getur fengið betri upplýsingar um kauphegðun en ég sé ekki hvernig það breytir vísitölumælingunni. Mun það skila sér í öðrum vísitölugildum og þá í annarri tólf mánaða verðbólgu?

Guðmundur Sverrir Þór, 3.5.2009 kl. 14:51

7 Smámynd: Snorri Hrafn Guðmundsson

Það sem þetta gerir er að breyta viðmiðunarkörfunni.  Inni í vísitölunni í dag eru tjaldvagnar, jeppar, hátæknilúxusbúnaður og margt annað sem fólk er hætt að kaupa. Segjum svo að 32" flatskjáir vigti 0,5% inn í VNV skv. körfu 2008.  Þeir hækka í verði þegar ISK fellur, en í raun hefur vigt þeirra breyst í 0,1%. VNV endurspeglar því ekki neyslumynstursbreytingu en hefur áhrif á skuldir skv. eldra neyslumynstri.

VNV miðar við að bera saman eina körfu gegn annarri. Sú leið sem ég er að tala um útrýmir körfum alfarið og styðst við rauntölur sem vigtaðar eru sjálfvirkt inn þegar viðskipti eiga sér stað (en verða væntanlega teknar saman í lok dags, vikulega, eða mánaðarlega allt hvernig óskað er eftir að framkvæma þetta).

Segjum svo að einn daginn kaupi 500 manns kókómjólk á kr. 301 en 1.000 manns kók á kr. 196.  Gerum svo ráð fyrir að kókómjólk lækki úr kr. 301 í 200 en kók hækki úr 196 í 300.  Þetta veldur því að 1.000 aðilar kaupa frekar kókómjólk en aðeins 500 kók. Neyslubreytingin eykur vægi kókómjólk en dregur úr vægi kók. VNV samanstendur af vigtum sem byggja á körfu. Ég vil körfuna út og sjálfvirkt vægi reiknað með tilliti til viðskiptamagns.

Með krónuna á sífelldu flökti verðum við að koma VNV sem næst rauntíma, því allur samanburður á milli tímabila gefur kolvitlausa mynd, sérstaklega þegar hagkerfið snýst eins og flotholt í hringiðu. Fók dregur úr neyslu á vissum vörutegundum en VNV setur það um koll vegna þess að karfan byggir á úreltum stöðlum.

Svo ég taki annað dæmi frá USA (þar sem ég var í 7 ár bæði í námi og við ýmis greiningarstörf tengdu markssviði) þá lagði Procter & Gamble gríðarlega fjármuni í að samtengja kassakerfi allra viðskiptaðila við pöntunarkerfi. Þegar birgðastaða fór undir viss mörk, var send sjálfkrafa pöntun á Procter & Gamble sem kom vörunni í hús áður en birgðir kláruðust. Þetta var árið 1996. Í dag höfum við enn öflugri forrit og tækjabúnað.  Ísland er auk þess kjörið í þetta verkefni þar sem landið er smátt.

Snorri Hrafn Guðmundsson, 3.5.2009 kl. 15:26

8 Smámynd: Snorri Hrafn Guðmundsson

Ætla að bæta við þessu:

Verðbólgumarkmið SÍ miða við söguleg gögn; rauntímamæling segir SÍ samstundis hvaða áhrif aðgerðir hafa út á markað og gerir neytendum kleift að hafa bein áhrif á VNV með neyslumynstursbreytingum. Í dag eru t.a.m. hlutir eins og tjaldvagnar að vigta inní VNN.  Segjum sem svo að aðgerðir SÍ hafi áhrif til lækkunar gengisvísitölu og að neyslumynstrið breytist í kjölfarið. SÍ sér strax áhrif eigin aðgerða og er því kominn með mun skilvirkara stjórntæki.

Áhrif á 12 mánaða verðbólgu ... þessi aðferð fasar út eldri aðferð í fjórum þrepum: 3 mán, 6 mán, 9 mán, 12 mán.  VNV miðað við heildarmagn og veltu mun gefa allt aðra mynd af hagkerfinu en núverandi VNV sem miðar að því að vera sífellt í baksýnisspeglinum í stað þess að líta fram á við.

Snorri Hrafn Guðmundsson, 3.5.2009 kl. 15:45

9 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Þetta eru áhugaverðar hugmyndir en ég velti fyrir mér hvernig þú ætlar að mæla verðbólguna á milli ára með þessu, hvernig ætlarðu að losna við árstíðasveiflur og tímabundin tilboð? Ein af ástæðunum fyrir því að menn nota tólf mánaða verðbólgu er til að draga úr útsöluáhrifum.

 Ef ég skil þig rétt þá ertu ekki að tala um að mæla verðbólgu heldur að meta neyslumynstur.

Guðmundur Sverrir Þór, 3.5.2009 kl. 19:43

10 Smámynd: Snorri Hrafn Guðmundsson

"...hvernig ætlarðu að losna við árstíðasveiflur og tímabundin tilboð? Ein af ástæðunum fyrir því að menn nota tólf mánaða verðbólgu er til að draga úr útsöluáhrifum."

Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ég get ekki séð að VNV gefi rétta mynd þar sem aðferðarfræðin útilokar tvær lykilstærðir:

  • Cyclical sales (s.s. vorútsölur)
  • Product lifetime (s.s. nýjar vörulinur)

Báðar stærðir veita lykilupplýsingar hvernig staða neytendamarkaðar er hverja stund. Segjum svo að um rauntímakerfi sé að ræða sem reiknar vigtir miðað við sölumagn og verð á dag. Samantekt hvers mánaðar er þá vegið meðaltal af hreyfingum innan tímabilsins. Sé um útsölur að ræða sem áhrif hafa á stærri hluta vöruflokks þá hlýtur það að vera réttara verð en fast verð sem hagstofur miða við þar sem það verð er etv. aðeins í boði í einn dag eða einni verslun.

VNV hlýtur að taka mið af markaðsaðstæðum hverju sinni, s.s. hvernig bregðast smásöluaðilar við aðgerðum SÍ og gengissveiflum og hver eru viðbrögð markaðarins við því. Endaleg tafla mun líta eins og hún gerir í dag, nema vigtun undirvísitalna breytist í takt við neytendamarkað. Hliðaráhrif af þessu verður efld samkeppni þar sem fyrirtækin geta séð hvort verð þeirra sé fyrir ofan eða neðan meðaltal.

VNV í dag segir mér ekkert um stöðu neins þar sem hún mælir ekkert sem marktækt er miðað við markaðsforsendur. Annað sem kemur hér inn er að beintenging af þeim toga sem ég legg til kemur í veg fyrir að smásöluaðilar breyti verðum ef þeir eiga von á útsendurum hagstofu í heimsókn; slík breyting myndi hafa engin áhrif á verðlagtímabilsins.

Útsölur og verðsamkeppni er hluti af neysluverði. Að taka þetta út gefur ranga mynd af verðlagi þar sem hún byggir ekki á raunverulegum stærðum heldur aðferð sem gerir ráð fyrir frávikum. Sú leið sem ég legg til kemur í veg fyrir frávik og jafnar sjálfkrafa út toppa og lægðir.  Það er ekkert til fyrirstöðu að keyra X-12-Arima og aðrar tölfræðiaðgerðir yfir niðurstöðurnar; eina breytingin er að vigtirnar er orðnar réttar og endurspegla neytendamarkað eins og hann er.

Í stuttu máli: aðferðin sem beitt er af hagstofum er úrelt miðað við tæknistig þróaðra hagkerfa. Af því leiðir að VNV er í raun úreltur mælikvarði sem gefur enga mynd af neinu, sérstaklega þegar svona bylmingshögg ríður yfir heiminn og allt fer úr skorðum.

"Ef ég skil þig rétt þá ertu ekki að tala um að mæla verðbólgu heldur að meta neyslumynstur. "

Bæði. Verðbólga á að gefa mynd af útgjaldabreytingu heimila. Hún gerir það ekki nema að taka mið af neyslumynstri.

"Inflation is a rise in consumer prices, increasing the cost of living." Heimild

Það er nákvæmlega þetta sem VNV mælir ekki vegna þess að hún tekur ekki mið af raunverulegum gögnum. VNV eykur auk þess hættuna á óstöðugleika:

"Inflation has another bad side effect....once people start to expect inflation, they will spend now rather than later, because things will only cost more later. This consumer spending heats up the economy even more, leading to further inflation - this situation is known as spiraling inflation because it spirals out of control." Heimild

Með raunhæfari aðferðarfræði er búið að útrýma þessari hættu þar sem smásöluaðilar munu sjálfir sjá til þess að halda verðbólgu innan ásættanlegra marka svo SÍ hækki ekki vexti.

Snorri Hrafn Guðmundsson, 3.5.2009 kl. 22:13

11 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

VNV og verðbólga er náttúrulega ekki það sama, eins og þú veist, og því geturðu ekki sagt að VNV auki hættuna á óstöðugleika. Hún er notuð til að mæla stöðugleikann í hagkerfinu. Mikil breyting VNV=efnahagslegur óstöðugleiki.

Þú notar ekki tólf mánaða verðbólgu til þess að útiloka útsöluáhrif heldur til þess að ekki myndist skekkja vegna útsalna. Ef þú berð saman febrúar og janúar færðu skekkju vegna þess að útsölur eru í janúar en þeim er yfirleitt lokið í febrúar. Þá kemur inn "verðlagsskot" sem gæti gefið villandi mynd ef þú lítur ekki yfir nógu langan tíma.

Sem sagt, þetta eru áhugaverðar hugmyndir og það er góðra gjalda vert að fylgjast betur með neyslumynstri en gert er í dag en það kemur að mínu mati ekki í staðinn fyrir að mæla verðbólgu án þann sem þegar er gert. Þetta er hins vegar mjög gott complement.

Ég læt þessu lokið núna en þakka fyrir áhugaverðan debatt.

Guðmundur Sverrir Þór, 4.5.2009 kl. 09:17

12 Smámynd: Snorri Hrafn Guðmundsson

Útsölur eru ekki skekkja heldur hluti af verðlagi. Taki VNV ekki mið að því verðlagi sem ríkir gefur hún vitlausa mynd. Þetta er ein ástæða þess að hagfræðingar allsstaðar eru að fá vitlausar niðurstöður varðandi dýpt efnahagslægðarinnar. Þeir eru að setja markaðsfræðilegar tölur í umgjörð sem er vitlaus.

VNV er undirstaða verðbólgu enda er verðbólga reiknuð út frá VNV. Hvorugt er nothæfur mælikvarði á hvað sé í vændum. Framkvæmdastjórn ESB var að staðfesta þetta með því að segja efnahagslægðina verða dýpri en talið var. Þessu hef ég haldið fram síðan í október 2008 en notað rauntölur í stað ágiskana og námundana. Sé raunverulegt verðlag keyrt inn í spálíkan kemur allt önnur - og réttari - mynd fram. Það er ástæða fyrir því að Kaninn tekur meira mið af markaðsupplýsingum en haglíkönum. Ástæða: haglíkön eru 'reactive', markaðsupplýsingar 'proactive'.

Það er þekkt að verðbólga auka hættu á óstöðugleika, en undirstaða hennar er VNV. Af því leiðir að sé VNV mæld vitlaust hefur hún bein áhrif á áhættuþáttinn.

Þakka góða umræðu.

Snorri Hrafn Guðmundsson, 4.5.2009 kl. 15:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Snorri Hrafn Guðmundsson
Snorri Hrafn Guðmundsson
MBA í markaðsfræðum og greiningum frá Suffolk University, Boston (1997).

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband