Leita í fréttum mbl.is

Viðsnúningur mögulegur

Ég fæ ekki betur séð en að við séum að komast í gegnum þessa kreppu ef allir halda ró sinni og stjórnvöld tryggja að fleiri gjaldþrot eigi sér ekki stað á fyrirtækjamarkaði. Við megum hreinlega ekki við því.
 
report2006_02d.pngVið erum þegar komin í gegnum mesta verðbólgukúfinn hvað varðar verðtryggð lán. Frá því í september 2008 (síðustu tölur Seðlabanka Íslands) hafa verðtryggð lán lækkað um 2,2%. Í næsta mánuði má gera ráð fyrir að lækkunin nemi 5,7% og eru afborganir þá komnar á svipað stig og í janúar 2008.
 
Aðilar sem eru með verðtryggð lán eru því hvattir til þess að leita allra leiða við að halda sér á floti og stjórnvöld hvött til þess að aðstoð við aðila í greiðsluerfiðleikum berist hratt og örugglega. Það þýðir ekki að  velta hlutunum fyrir sér núna; við getum snúið öllu dæminu við sé brugðist við hratt og örugglega. Grundvallarstefna: EKKI FLEIRI GJALDÞROT!
 
Lán í erlendum gjaldmiðlum er næsta verkefni sem verið er að leysa. Staðan er þó öllu verri en í hinum lánaflokknum en þó ekki eins slæm og fjölmiðlar vilja vera láta. Frá því í september 2008 hafa þessi lán hækkað um aðeins 26,2% sem vissulega er hátt en þó ekki óyfirstíganlegt grípi stjórnvöld inn í sem ég hef fulla trú á.
 
report2006_03d_843243.pngEins og sést á grafi höfum við komist í gegnum mesta höggið, en krónan er að síga aftur í sama farveg og hún var í þegar allt hrundi. Draga má þá ályktun annað hrun sé í vændum, en ekki má gleyma að hlutir geta gerst hratt svo lengi sem réttar ákvarðanir séu teknar og að stjórnvöld þori að taka áhættu (sé áhætta ekki tekin getur allt farið á hvolf sbr. orðatiltækið 'Vogun vinnur, vogun tapar'). Við erum þegar þekkt fyrir að hafagert landið að vogunarsjóð; notum svipað hugarfar við að keyra okkur úr kreppunni.
 
Það bráðvantar tiltrú á hagkerfið vegna þess að Íslendingar eru að leika eftir sömu leikreglum og miljónasamfélög. Það þýðir ekki að haga seglum eftir þeirra vindi, heldur þarf að haga þeim eftir okkar eigin. Það verður að stöðva gjaldþrotahrinuna af öllum mætti, þess vegna leysa inn fjármagn sem læst er inni í ýmsum sjóðum og láta lífeyrissjóðina koma inn til styrkingar atvinnulífinu. Það er hvorki þeim, lífeyrisþegum, né þjóðinni í hag að þeir liggi á fjármagni þegar nýta má það til þess að snúa hagkerfinu við. Vek athygli á að erlendum eignum lífeyrissjóðanna verður að verja innanlands eins og staðan er og ekki erlendis sbr. eftirfarandi (Seðlabanki Íslands, staða lífeyrissjóðanna febrúar 2009):
  • Innlendir verðbréfasjóðir:113 m.a. (55,4%)
  • Erlendir verðbréfasjóðir: 91 m.a. (44,6%)
  • Innlendir hlutabréfasjóðir: 5 m.a. (2,5%)
  • Innlendir hlutabréfasjóðir: 207 m.a. (97,5%)
  • Innlend hlutabréf: 26 m.a. (29,5%)
  • Erlend hlutabréf: 62 m.a. (70,5%)
Þetta gerir samtals:
 
Innlend verðbréf með breytilegum tekjum: 144 m.a. (28,5%)
Erlend verðbréf með breytilegum tekjum: 360 m.a. (71,5%)
 
report2006_05_843272.pngHvers vegna eru íslenskir lífeyrissjóðir að efla atvinnulíf erlendis? Ég vil fá þessa 360 m.a. inn í íslenskt atvinnulíf og nýta við að auka eigið fé fyrirtækja í vandræðum. Upphæðin er ekki stór miðað við skuldsetningu fyrirtækja svo henni þarf að ráðstafa rétt, en hún dugar fyrir afborgunum lána næstu mánuði hjá völdum félögum og getur hægt eða jafnvel stöðvað atvinnuleysi og orðið hvati að endurreisn atvinnuveganna. Fyrir þessa upphæð er hægt að gera álver í Helguvík eða á Bakka að raunveruleika og snúa atvinnuleysisþróuninni við á augabragði. Það eitt gerir að verkum að greiðsluerfiðleikar hverfa og tiltrú erlendra aðila á krónunni eykst. Hver hefur ekki trú á hagkerfi sem snýr sér út því að vera verst stadda hagkerfi Evrópu yfir í það sem sigraði kreppuna fyrst? Þessi aðgerð er að mínu mati fljótasta leiðin út úr þessar kreppu, en til þess að beita henni þarf kjark og áræðni.
 
Vil taka fram að 360 m.a. jafngildir 31,6% af hreinni eign lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris, svo lífeyrir mun skerðast tímabundið, en nú ríkir neyðarástand sem þarf að bregðast við af alefli. Tekjuskerðing sjóðanna og þjóðarbúsins, sé gjaldþrotahrinunni leyft að halda áfram, verður talsvert meiri. Við höfum hreinlega ekki efni á því að bíða.
 
Athugasemdir vel þegnar; lífeyrissjóðakerfið er ekki mín deild, en fyrirtækjarekstur og neytendamarkaður eru það.
 
Ítarlegri umfjöllun (á ensku að vísu): Turnaround is possible

mbl.is Hlutabréf lækkuðu á Wall Street
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Torfi Einarsson

Mjög athyglisverðar tillögur. Á einhverjum tímapunkti verða lífeyrissjóðirnir sjálfsagt notaðir til þess koma hjólunum af stað á ný. Ég er hjartanlega sammála þér um "bregðast þurfi við hratt og örugglega" og að "leita verði allra leiða". Sérstaklega er ég þó sammála því að ekki sé lengur hægt að treysta á stöðluðu handbókina um efnahagsmál - hefbundu leikreglurnar eiga lengur við. 

Ekkert af þessu er "mín deild," en hér eru nokkrar spurningar og punktar. 

þú segir:  Ég vil fá þessa 360 m.a. inn í íslenskt atvinnulíf og nýta við að auka eigið fé fyrirtækja í vandræðum. Upphæðin er ekki stór miðað við skuldsetningu fyrirtækja svo henni þarf að ráðstafa rétt, en hún dugar fyrir afborgunum lána næstu mánuði hjá völdum félögum og getur hægt eða jafnvel stöðvað atvinnuleysi og orðið hvati að endurreisn atvinnuveganna.

1) Vegna gríðarlegra skulda fyrirtækja er ekki hætt við að verið sé að henta sparnaði almennings í botnlausan pytt, eingöngu til þessa fresta því óumflýjanlega? 

2) Eins og þú bendur á þarf að handvelja fyrirtækin sem myndu njóta fyrirgreiðslunnar, en bíður þetta líka ekki hættunni heim? Traust til stjórnmálamana er ekki beint mikið þessa stundina - kannski ekki af ástæðulausu - og þetta gæti ýtt undir frekara vantraust. Er þeim treystandi til þessa velja rétt?  

Þú stingur upp á að grundvallarstefna verði: Ekki fleiri gjaldþrot. 

Ég hef nokkrar efasemdir um að þetta sé góð regla. Þvert á móti gæti verið vænlegra að ráðast hratt og örugglega í það að gera fyrirtækin upp og breyta um eignarhald. Grundvallarstefnan hingað til hefur verið að "laða erlend fjármagn til landsins" (eins skrítið og það nú er) en á þennan hátt gætum við fengið erlenda fjárfesta til þessa að koma beint að atvinnulífinu í gegnum eignarhaldi (í stað þess að kaupa bara íslensk skuldabréf).

Vandamálið er, eins og þú bendir á, skuldir fyrirtækja í erlendri mynt, en þetta þýðir að við höfum ekki tækin (getum t.d. ekki prentað evrur) til að bregðast við vandanum. Þar af leiðandi er best að fara liquidation-leiðina þegar kemur að fyrirtækjunum, en breyta samhliða hinni mjög svo ómannúðlegu og óhagkvæmu gjaldþrotalöggjöf svo þetta geti gengið eins hratt og sársaukalaust fyrir sig og hægt er. 

Eigendur og stjórnendur íslenskra fyrirtækja hafa staðið sig ferlega illa og eiga því tæplega skilið að sparnaði almennings verði sóað til þess að halda þeim á floti. Freisti-vandinn eða moral hazard hefur verið hluti af íslensku atvinnulífi of lengi og kominn tími til þess að skera á hnútinn.

Í stað þess að hlaupa undir bagga með ofurskuldsettum fyrirtækjum ættu aðgerðirnar og fjármunir lífeyrissjóðanna að beinast að því að endurskipuleggja skuldir almennings. Nær allar íslenskar hagtölur (skuldir þjóðarbúsins, viðskiptajöfnuður og gengisskráning) voru komnar langt út fyrir allan þjófabálk í samanburði við önnur ríki. Eina undartekningin voru fjármál heimilanna; Þótt skuldir miðað rástöfunartekjur hafi vissulega verið háar 2007 þá voru þær í samræmi við t.d. BNA, Bretland og Danmörku. 

Ólíkt fyrirtækjunum eru skuldir heimilanna ekki í erlendri mynt (aðeins um 10% að mig minnir). Verðtryggingin reyndist hins vegar jafn hættuleg og erlend lánin og því eru aðstæður hér svipaðar og í Austur Evrópu þar sem húsnæðisbólan var drifin áfram með lánum í evrum og svissneskum frönkum. En verðtryggingin er í íslenskum krónum þannig við höfum öll tækin til þess að endurskipuleggja skuldirnar og að því leyti erum við betur stödd en Austur Evrópa.

Skuldlítill almenningur gefur von um að eftirspurnin í hagkerfinu haldist uppi - einkaneysla stendur fyrir meira en helming landsframleiðslunnar. Það er til lítils að dæla peningum í fyrirtæki ef rekstrargrundvöllur þeirra er horfinn. 

Grundvallaratriði í heilbrigðum fjármálum fyrirtækja og heimila er að tekjur og gjöld séu í sömu mynt. Verðtrygging brýtur þessa reglu og á því að afnema tafarlaust og leiðrétta aftur í tímann.  Auk þess er ég sammála þér um að krónan geti tekið aðra dýfu, og það er augljóst að heimilin þola ekki frekari gengis-verðbætur ofan á herlegheitin.

Að lokum er meiri sanngirni fólgin í þessari leið; það var ekki heimilareksturinn sem keyrði okkur um koll heldur óábyrgur fyrirtækjarekstur, sérstaklega í fjármálaþjónustu. Ef vandræðin halda áfram að versna erlendis - sem er líklegra en ekki - þá gæti mesta hættan stafað af  félagslegri upplausn en ekki ljótum efnahagsreikningum. 

bestu kveðjur

Kristján Torfi Einarsson, 6.5.2009 kl. 16:30

2 identicon

Afnám Verðtryggingar gerir það sama

Afnám verðtryggingar er sama og afnám kreppu

En auðvaldið og ráðamenn vilja okkur -öllum illt

Ráðamenn vilja að skuldarar verði áfram skuldarar og þrælar

Kveðja

Æsir 6.5.2009 kl. 17:55

3 Smámynd: Snorri Hrafn Guðmundsson

Verðtrygging er úrelt fyrirkomulag, sammála þar; veldur tvöföldu höggi á lántakendur.

Kristján, þá er að svara þessum ágætu spurningum:

1) Vegna gríðarlegra skulda fyrirtækja er ekki hætt við að verið sé að henta sparnaði almennings í botnlausan pytt, eingöngu til þessa fresta því óumflýjanlega?

Ekki sé málum stýrt viturlega s.s. að fyrirtæki skuldbindi sig að ráða til sín starfsfólk í hlutfalli við aukningu eigin fjár. Þarna kemur inn mikilvægi þess að dreifa fé rétt á milli félaga svo hægt sé að gangsetja viðskipti þeirra á milli. Ráðningar auka svo sparnað og neyslu, sem kemur hjólunum aftur af stað. Við erum að líta í þann botnlausa pytt að allt frjósi fast, að verðmæti rýrni frekar og viðskiptakeðjur (ekki eignarhaldskeðjur heldur A skiptir við B sem skiptir við C etc) slitni. Það tekur tíma að byggja upp viðskiptanet og betra að tryggja að hægt sé að halda þeim við.

2) Eins og þú bendur á þarf að handvelja fyrirtækin sem myndu njóta fyrirgreiðslunnar, en bíður þetta líka ekki hættunni heim? Traust til stjórnmálamana er ekki beint mikið þessa stundina - kannski ekki af ástæðulausu - og þetta gæti ýtt undir frekara vantraust. Er þeim treystandi til þessa velja rétt?

Þetta býður einmitt hættunni heim sé þetta ekki rétt útfært. Hægt er að setja viss skilyrði s.s. sömu eigendur megi ekki vera á bakvið tvö fyrirtæki sem fá aukið eigið fé, sé félag í einni grein styrkt er amk. 1 - 2 önnur styrkt í réttu hlutfalli. Vissulega hafa sum fyrirtæki verið skuldsett svo gríðarlega að það er ekki hægt að bjarga þeim. Stjórnmálamenn munu ekki hafa nein áhrif á hvaða fyrirtæki verða fyrir valinu, heldur stjórnir viðkomandi lífeyrissjóða. Þannig mun VR efla félög innan verslunar og þjónustu o.s.frv. rétt eins og gerist í dag. Skilyrðin þurfa þó að vera mjög skýr og þurfa lykilaðilar að koma að slíku s.s. Landssamtök lífeyrissjóða, Samtök Atvinnulífsins, ASÍ, Vinnumálastofnun o.s.frv.

"Ég hef nokkrar efasemdir um að [Ekki fleiri gjaldþrot] sé góð regla. Þvert á móti gæti verið vænlegra að ráðast hratt og örugglega í það að gera fyrirtækin upp og breyta um eignarhald. Grundvallarstefnan hingað til hefur verið að "laða erlend fjármagn til landsins" (eins skrítið og það nú er) en á þennan hátt gætum við fengið erlenda fjárfesta til þessa að koma beint að atvinnulífinu í gegnum eignarhaldi (í stað þess að kaupa bara íslensk skuldabréf)."

Erlendir aðilar hafa takmarkaðan áhuga á smærri félögum (og geta hreinlega rifið allt fjármagn út úr þeim og flutt úr landi um leið og gjaldeyrishöft hverfa sem yrði enn eitt höggið), en það eru þau sem ég hef í huga fyrst og fremst varðandi þessar aðgerðir. Gjaldþrot eykur atvinnuleysi og þ.a.l. þrýsting á tekjutryggingarsjóð auk þess sem lífeyrissjóðir rýrna og skattheimta dregst saman. Gjaldþrot leiða beint til dýpkunar kreppuástands og verði ekki brugðist við áður en krónan gefur aftur eftir þá getur það ástand sem við búum við í dag versnað til muna og jafnvel fest sig í sessi. Segjum svo að krónan falli um 50% á fáeinum dögum; það sem gerist er að verðbólga flýgur aftur upp og þá hefst enn stærri gjaldþrotahrina. Vandamálið núna er markaðstengt; að virkja aftur viðskiptanetin og koma neyslu aftur af stað. Það er framkvæmanlegt eins og er, en sá gluggi getur lokast hvenær sem er.

"Eigendur og stjórnendur íslenskra fyrirtækja hafa staðið sig ferlega illa og eiga því tæplega skilið að sparnaði almennings verði sóað til þess að halda þeim á floti. Freisti-vandinn eða moral hazard hefur verið hluti af íslensku atvinnulífi of lengi og kominn tími til þess að skera á hnútinn."

Þarna er ég að miklu leyti sammála. Það hefur ekki farið mikið fyrir langtímaáætlunum þó undantekningar séu á því. Sé eigið fé félags aukið með því móti sem ég velti upp er alls ekki úr vegi að skipta um stjórn. Sé um smærra félag að ræða má vel setja inn annan framkvæmdastjóra, enda er stjórnun lítilla félaga oft verulega ábótavant hvað varðar stjórnunarkunnáttu. Eitt af skilyrðum eiginfjáraukningar gæti verið að miða að skráningu á Kauphöllina, sem þarf fleiri félög þar inn. Sú leið eykur jafnframt veltu hjá endurskoðendafyrirtækjum sem finna fyrir samdrættinum vegna minnkandi markaðar.

"Í stað þess að hlaupa undir bagga með ofurskuldsettum fyrirtækjum ættu aðgerðirnar og fjármunir lífeyrissjóðanna að beinast að því að endurskipuleggja skuldir almennings. Nær allar íslenskar hagtölur (skuldir þjóðarbúsins, viðskiptajöfnuður og gengisskráning) voru komnar langt út fyrir allan þjófabálk í samanburði við önnur ríki. Eina undartekningin voru fjármál heimilanna; Þótt skuldir miðað rástöfunartekjur hafi vissulega verið háar 2007 þá voru þær í samræmi við t.d. BNA, Bretland og Danmörku."

Eins og ég lít á dæmið þá er besta leiðin til hjálpar heimilum að efla fyrirtækin sem fyrir eru. Ég hef lengi talað fyrir nýsköpun, en nýsköpun við þessar aðstæður gengur ekki upp - það tekur of langan tíma að byggja nýsköpunarfyrirtæki upp og brýnna að setja fé í aðra farvegi. Mér sýnist þú vera að einblína á fyrirtæki á borð við Eimskip og lík fyrirtæki sem voru undir hæl útrásavíkinganna. Ég nánast útiloka þau þar sem flest eru of skuldsett til þess að þeim verði bjargað, enda voru þau notuð við að búa til gerviverðmæti. Þau eru þó það stór að þar geta erlendir aðilar séð sér leik á borði að koma inn. Félög sem ég einblíni hvað mest á eru þau sem skapað geta fasta atvinnu til frambúðar. Aukin skattheimta, staðgreiðsla og útsvar vegna aukinnar veltu veitir ríki og sveitarfélögum svigrúm til þess að ráðast í framkvæmdir sem styrkir stoðirnar enn frekar. Fyrirtækin komast yfir hjallann og áður en langt um líður geta lífeyrissjóðirnir kippt sínum hluta aftur út. Tek fram að ég sett þetta fram á einfaldan hátt; framkvæmdin kallar á skipulagningu sem jaðrar við byggingu Kárahnjúkavirkjunar.

"Ólíkt fyrirtækjunum eru skuldir heimilanna ekki í erlendri mynt (aðeins um 10% að mig minnir). Verðtryggingin reyndist hins vegar jafn hættuleg og erlend lánin og því eru aðstæður hér svipaðar og í Austur Evrópu þar sem húsnæðisbólan var drifin áfram með lánum í evrum og svissneskum frönkum. En verðtryggingin er í íslenskum krónum þannig við höfum öll tækin til þess að endurskipuleggja skuldirnar og að því leyti erum við betur stödd en Austur Evrópa."

Skv. SÍ september 2008 (Útlánatafla) voru heildarskuldir heimilanna 1.030 m.a. og fyrirtækja 1.985 m.a. Af því voru gengisbundin skuldabréf heimilanna 271 m.a. (26,4%) og fyrirtækjanna 1.439 m.a. (72,5%). Málið með A-Evrópu er að þar eru neytendamarkaðir nægilega stórir til þess að byggjast sjálfkrafa upp aftur (Eurostat Population) þó það geti tekið sinn tíma sérstaklega miðað við hvernig skuldasamsetningu var háttað. Verðtryggingin hér býður hættunni heim að lán geti rokið upp úr öllu valdi á augabragði. Vissulega geta þau lækkað, en krónan hækkar aldrei jafn hratt og hún lækkar þar sem auðveldara er að missa traust en vinna sér það inn og á því byggja öll sambönd. Aðilar á fjármálamarkaði geta því ekki aðeins tekið stöðu gegn krónunni, heldur einnig lántakendum. Það dugar að fella krónuna til þess að heimilin fari í þrot.

"Skuldlítill almenningur gefur von um að eftirspurnin í hagkerfinu haldist uppi - einkaneysla stendur fyrir meira en helming landsframleiðslunnar. Það er til lítils að dæla peningum í fyrirtæki ef rekstrargrundvöllur þeirra er horfinn."

Rétt, einkaneysla nam 54,2% af VLF 2008. Smá reiknidæmi (er ekki að reikna neitt út heldur aðeins að henda inn tölum):

1. Heimili er með 20 miljón króna lán og er mánaðarleg afborgun 200 þúsund. Á heimilinu ríkir 100% atvinnuleysi og ráðstöfunarfé er 150 þúsund. Heimilið er í þroti.

2. Lán er lækkað í 15 milj. og mánaðarleg afborgun fer í 150 þúsund. Heimilið er samt sem áður í gjaldþroti.

3. Lán er ekki lækkað en atvinna aukin þannig að atvinnuleysi fer í 50% og ráðstöfunarfé í 300 þúsund. Heimilið heldur eftir 100 þúsund á mánuði og er ekki í gjaldþroti þó halda þurfi vel á spilunum.

4. Atvinna er aftur aukin þannig að atvinnuleysi fer í 0% og ráðstöfunarfé í 600 þúsund. Heimilið heldur eftir 400 þúsund á mánuði og getur aftur leyft sér ýmislegt.

Það er leið 4 sem ég vil fara og tel að sé hægt sé gripið til aðgerða strax.

"Grundvallaratriði í heilbrigðum fjármálum fyrirtækja og heimila er að tekjur og gjöld séu í sömu mynt. Verðtrygging brýtur þessa reglu og á því að afnema tafarlaust og leiðrétta aftur í tímann.  Auk þess er ég sammála þér um að krónan geti tekið aðra dýfu, og það er augljóst að heimilin þola ekki frekari gengis-verðbætur ofan á herlegheitin."

Hvernig tengist verðtrygging myntum?

"Að lokum er meiri sanngirni fólgin í þessari leið; það var ekki heimilareksturinn sem keyrði okkur um koll heldur óábyrgur fyrirtækjarekstur, sérstaklega í fjármálaþjónustu. Ef vandræðin halda áfram að versna erlendis - sem er líklegra en ekki - þá gæti mesta hættan stafað af  félagslegri upplausn en ekki ljótum efnahagsreikningum."

Þarna er ég ekki alveg sammála að öllu leyti. Sumir fóru offari í flottheitum. Það dugði ekki að kaupa hús umfram þörf, heldur voru innréttingar rifnar út í heilu lagi og nýtt sett inn sem tvöfaldaði skuldsetninguna. Það sem var aftur á móti ekki heimilunum að kenna voru fjármunir sem glötuðust í bankahruninu.

Ég er uggandi yfir ástandinu og er á þeirri skoðun að sé ekki gripið til aðgerða í maí muni önnur og kröftugri búsáhaldabylting eiga sér stað. Það vantar lausafé inn í fyrirtækin til eflingar atvinnu og það þýðir ekki að liggja á fjármunum eins og staðan er í dag.

Snorri Hrafn Guðmundsson, 7.5.2009 kl. 01:31

4 Smámynd: Kristján Torfi Einarsson

Kærar þakkir fyrir góð svör,

Varðandi tværi myntir og verðtrygginguna: Verðtryggingin gerir það að verkum að í raun eru tvær myntir í landinu, sú verðtryggða og óverðtryggða. Ef launin mín væru líka verðtryggð þá væri skuldareglunni framfylgt, en þar sem launin eru óverðtryggð og skuldin verðtryggð þá er reglan brotin. Er ekki svolítið öfugsnúið að ríkið skuli brjóta þessa grundvallarreglu gagnvart almenning?

Varðandi skuldastöðu heimila og fyrirtækja þá skulduðu heimilin lánakerfinu 1.890 milljarða undir lok 3. fjórðungs í fyrra (sjálfsagt 2.000 milljarða í dag) og fyrirtækin 5.500 milljarða. Þannig gengistryggðulánin (eingöngu bundin við bankakerfið) heimilanna eru um 14%. (sjá hér reikninga lánakerfisins). 

Þetta eru góð rök sem þú færir fyrir máli þínu og ég fellst á þau í öllum meginatriðum. Væntanlega er stærsta hindrunin sú að aðgerðin er álíka "flókin og Kárahnjúkaframkvæmdin" á meðan aðgerða er þörf starx í gær. 

Ég skil t.d. áhersluna sem þú leggur á viðskiptakeðjur (þó ég hafi ekki hugleitt þetta áður), en ég velti fyrir mér hvort ekki sé hægt að framkvæma gjaldþrotin án þess að stöðva reksturinn (svo einhverskonar chapter eleven dæmi).   

Eitt atriði sem gæti skýrt hvers vegna lífeyrissjóðir og fjármagnseigendur sitja enn á gullinu. Þeir treysta ekki að botninum sé náð og búast við frekari gengisfellingu og vandræðum. Ef þetta er tilfellið þá er þetta jafnframt rök fyrir því að afnema eigi gjaldeyrishöftin og hleypa spákaupmönnunum út (með allt niðrum sig). Þá fyrst sæju fjármagnseigendur verulegan hagnað í því að taka stöðu með krónunni. Gengishrunið myndi að sjálfsögðu rústa ennfrekar efnahagsreikningum fyrirtækja og heimila, en eins og ég segi þá er fyrirtækjunum óviðbjargandi (erlendu skuldirnar) á meðan þetta gæti styrkt reikninga heimilanna ef verðtryggingin væri afnumin. Þá styrkir gengisfelling líka samkeppnihæfni innlendrar framleiðslu, ekki satt?

Verðbólga er venjulega böl en undir vissum kringumstæðum þá eru hún lausn, t.d. í skuldakreppu þegar stærsta hættan er fólgin í verðhjöðnun.  

Það er verulegur skortur á lausafé í landinu, eins og þú segir, en er ekki besta ráðið við þessum vanda að beita seðlbankanum til þess að dæla inn lausafé, lækka vexti og kaupa ríkispappíra til þess að ná vaxtastiginu niður (og fjármagna ríkishallann). Er ekki forgangsverkefnið að losa stofnunina úr herkvínni og beita henni í samræmi við upprunalegan tilgang hennar, þ.e. sem lánveitanda til þrautavara í lausafjárkrísum og verndara fjármálastöðugleikans.

Takk fyrir spjallið og fræðandi skrif         

Kristján Torfi Einarsson, 7.5.2009 kl. 13:25

5 Smámynd: Snorri Hrafn Guðmundsson

Heill og sæll,

Hef einmitt gaman af svona umræðu, í raun eina leiðin að prófa hugmyndir.  Skil hvert þú ert að fara með verðtryggingu og gjaldmiðla; hélt að þú værir að tengja saman myntkörfulán og verðtryggt lán. Gengismálin hérna eru alveg ómetanleg; hef aldrei heyrt um tvöfalt gengi á gjaldmiðli í þróuðu ríki áður.

Ég er nota annað SÍ skjal sem er útlánaflokkunin (Útlán; flipi II; Flokkun útlána innlánsstofnana) þar sem hægt er að sjá hversu stór hluti skulda heimilanna eru erlend myntkörfulán.

Samtals

[Cell B13] Fyrirtæki: 1.985 m.a.

[Cell B25] Heimili: 1.030 m.a.a

Verðtryggð skuldabréf

[Cell B120] Fyrirtæki: 192 m.a. (9,6%)

[Cell B132] Heimili: 625 m.a. (60,7%)

Gengisbundin skuldabréf

[Cell B142] Fyrirtæki: 1.439 m.a. (72,5%)

[Cell B154] Heimili: 271 m.a. (26,4%)

"Væntanlega er stærsta hindrunin sú að aðgerðin er álíka "flókin og Kárahnjúkaframkvæmdin" á meðan aðgerða er þörf strax í gær. "

Þarna kemur upplýsingatæknigeirinn inn. Það er hægt að víra þetta allt saman. IceStat er í rauninni með stærstan hluta þessara gagna, þarf aðeins (!) beintengingu við SÍ og Hagstofu til þess að ljúka kortlagningunni. Það sem til þarf er miðlæg gagnaveita sem gerir mögulegt að keyra allar opinberar tölur saman og 'plögga' innri kerfi fyrirtækja beint inn í flæðið. Hef barist fyrir þessi í næstum áratug en ekkert gengur né rekur í þeim málum. Tímaraðir mynda orsaka- og alfleiðingakeðjur sem eykur þekkingu á samspili mismunandi þátta. Væri slíkt til staðar myndu allar aðgerðir stjórnvalda og SÍ verða markvissari þar sem útkoman lægi nánast fyrir. Eins og staðan er í dag byggja ákvarðanir á ágiskunum (sbr. verðbólga sem gefur enga mynd af raunverulegu verðlagi).

"Ég skil t.d. áhersluna sem þú leggur á viðskiptakeðjur (þó ég hafi ekki hugleitt þetta áður), en ég velti fyrir mér hvort ekki sé hægt að framkvæma gjaldþrotin án þess að stöðva reksturinn (svo einhverskonar chapter eleven dæmi)."

Mér sýnist þá leið vera farin hjá bönkunum. Slíkt gerir þó að verkum að starfsandinn og kvíðinn sem setur að starfsfólki dregur úr framleiðni þess. Við hræðumst hið óþekkta. Væri hægt að komast hjá þessu með aukningu á eigin fé tímabundið finnst mér líklegt að framleiðni haldist á svipuðu reiki.

"Eitt atriði sem gæti skýrt hvers vegna lífeyrissjóðir og fjármagnseigendur sitja enn á gullinu. Þeir treysta ekki að botninum sé náð og búast við frekari gengisfellingu og vandræðum."

Alveg sammála því. Það fyndna er að sá ótti mun valda þeirri stöðu. Fjármagnseigendum er oft lýst sem kveifum; þeir eru kvíðnir, óttaslegnir, hræddir; minnir á fugla sem þeytast upp í loft sjái þeir eigin skugga. Þessir aðilar eiga semsagt að takast á við núverandi ástand en virðast ekki gera annað en að auka vandræðin vegna skorts á sjálfstrausti.Ríkisstjórnir sitja svo í foreldrahlutverkinu og reyna að telja þeim trú um að allt sé í besta lagi. Svo, við erum að eiga við börn í mömmu og pabbaleik á meðan almenningur veltir fyrir sér hvað í fjáranum sé í gagni. Ég hlæ meir að lýsingum af fjárfestum og yfirlýsingum stjórnvalda en Calvin & Hobbes. Minnir á barnaskóla.

"Gengishrunið myndi að sjálfsögðu rústa enn frekar efnahagsreikningum fyrirtækja og heimila, en eins og ég segi þá er fyrirtækjunum óviðbjargandi (erlendu skuldirnar) á meðan þetta gæti styrkt reikninga heimilanna ef verðtryggingin væri afnumin. Þá styrkir gengisfelling líka samkeppnihæfni innlendrar framleiðslu, ekki satt?"

Því fyrr sem gjaldeyrishöft eru felld niður því betra. Vildi þó hafa eflt útflutningsgreinarnar fyrst og styrkt stoðirnar svo hver króna vigti þyngra. Afnám gjaldeyrishafta á meðan atvinnuvegirnir eru í tætlum getur skapað ringulreið. Þessu vísa ég þó til hagfæðinganna sem eru betur til þess fallnir að meta áhrifin. Sé þó fram á að séu höftin tekin af á vitlausum tímapunkti getur það þurrkað allt út. Það þarf hvata svo fjárfestar sé óhræddir að taka þátt í uppbyggingu landsins. Það eru tækifæri hér og er kominn tími til þess að nýta þau. Mér finnst eins og viðsnúningur sé mögulegur sem gerir að verkum að tækifærin til fjárfestinga hérlendis eru núna.

"Verðbólga er venjulega böl en undir vissum kringumstæðum þá eru hún lausn, t.d. í skuldakreppu þegar stærsta hættan er fólgin í verðhjöðnun."

Ég legg fram mótrök að verðhjöðnun sé ekki annað en leiðrétting á rökfærsluskekkju í nútíma fjármálahugmyndafræði. Leggir þú inn 1 miljón getur banki lánað út 9 miljónir, farið með skuldabréfið í seðlabankann og látið prenta þær 8 miljónir sem á vantar. Þetta er undirliggjandi ástæða þess að ég tel að botni alþjóða fjármálakrísu sem engan veginn náð þar sem verðþan hefur verið of mikið og hlýtur að leita aftur til rótanna - raunverulegra verðmæta. Lánakerfin samanstanda af 90% verðmæta sem ekki eru til í raun og veru. Verðhjöðnun, eins og ég lít á hana, er nauðsynleg endurstilling á rökvillu og eina leiðin til þess að ná raunverulegum botni. Tel þess vegna að um 70% allra skulda verði afskrifaðar áður en uppbygging getur hafist.

"Það er verulegur skortur á lausafé í landinu, eins og þú segir, en er ekki besta ráðið við þessum vanda að beita seðlabankanum til þess að dæla inn lausafé, lækka vexti og kaupa ríkispappíra til þess að ná vaxtastiginu niður (og fjármagna ríkishallann). Er ekki forgangsverkefnið að losa stofnunina úr herkvínni og beita henni í samræmi við upprunalegan tilgang hennar, þ.e. sem lánveitanda til þrautavara í lausafjárkrísum og verndara fjármálastöðugleikans."

Nauðsynlegur hluti af heildarlausninni. Er samt á því að fjármálafræðin sé úr sér gengin þar sem þvílíkt ójafnvægi hefur myndast á eigna og skuldahlið að engin leið sé að koma jafnvægi þar á fyrr en grundvallarbreytingar á hugmyndafræði hafa átt sér stað. Sé verið að endurreisa sama kerfið aftur munu svona kreppur verða tíðari, dýpri og lengri. Bæði stjórnvöld og fjárfestar eru 'reactive' þessa stundina í stað 'proactive' sem eykur kvíða í þjóðfélaginu. Obama brýtur sig út úr þeirri stöðu að miklu leyti. Hann er t.a.m. með opinn tékka til eflingar upplýsingastreymis til almennings og krefst þess að fylki og opinberir aðilar taki sig saman í andlitinu hvað það varðar. Sú leið mun gera stjórnvöldum kleift að fara þá leið sem ég legg til að verði farin til endurreisnar landsins en ég geri mér engar vonir að sú leið verði farin hér.

Snorri Hrafn Guðmundsson, 7.5.2009 kl. 16:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Snorri Hrafn Guðmundsson
Snorri Hrafn Guðmundsson
MBA í markaðsfræðum og greiningum frá Suffolk University, Boston (1997).

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband