Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Viðsnúningur mögulegur

Ég fæ ekki betur séð en að við séum að komast í gegnum þessa kreppu ef allir halda ró sinni og stjórnvöld tryggja að fleiri gjaldþrot eigi sér ekki stað á fyrirtækjamarkaði. Við megum hreinlega ekki við því.
 
report2006_02d.pngVið erum þegar komin í gegnum mesta verðbólgukúfinn hvað varðar verðtryggð lán. Frá því í september 2008 (síðustu tölur Seðlabanka Íslands) hafa verðtryggð lán lækkað um 2,2%. Í næsta mánuði má gera ráð fyrir að lækkunin nemi 5,7% og eru afborganir þá komnar á svipað stig og í janúar 2008.
 
Aðilar sem eru með verðtryggð lán eru því hvattir til þess að leita allra leiða við að halda sér á floti og stjórnvöld hvött til þess að aðstoð við aðila í greiðsluerfiðleikum berist hratt og örugglega. Það þýðir ekki að  velta hlutunum fyrir sér núna; við getum snúið öllu dæminu við sé brugðist við hratt og örugglega. Grundvallarstefna: EKKI FLEIRI GJALDÞROT!
 
Lán í erlendum gjaldmiðlum er næsta verkefni sem verið er að leysa. Staðan er þó öllu verri en í hinum lánaflokknum en þó ekki eins slæm og fjölmiðlar vilja vera láta. Frá því í september 2008 hafa þessi lán hækkað um aðeins 26,2% sem vissulega er hátt en þó ekki óyfirstíganlegt grípi stjórnvöld inn í sem ég hef fulla trú á.
 
report2006_03d_843243.pngEins og sést á grafi höfum við komist í gegnum mesta höggið, en krónan er að síga aftur í sama farveg og hún var í þegar allt hrundi. Draga má þá ályktun annað hrun sé í vændum, en ekki má gleyma að hlutir geta gerst hratt svo lengi sem réttar ákvarðanir séu teknar og að stjórnvöld þori að taka áhættu (sé áhætta ekki tekin getur allt farið á hvolf sbr. orðatiltækið 'Vogun vinnur, vogun tapar'). Við erum þegar þekkt fyrir að hafagert landið að vogunarsjóð; notum svipað hugarfar við að keyra okkur úr kreppunni.
 
Það bráðvantar tiltrú á hagkerfið vegna þess að Íslendingar eru að leika eftir sömu leikreglum og miljónasamfélög. Það þýðir ekki að haga seglum eftir þeirra vindi, heldur þarf að haga þeim eftir okkar eigin. Það verður að stöðva gjaldþrotahrinuna af öllum mætti, þess vegna leysa inn fjármagn sem læst er inni í ýmsum sjóðum og láta lífeyrissjóðina koma inn til styrkingar atvinnulífinu. Það er hvorki þeim, lífeyrisþegum, né þjóðinni í hag að þeir liggi á fjármagni þegar nýta má það til þess að snúa hagkerfinu við. Vek athygli á að erlendum eignum lífeyrissjóðanna verður að verja innanlands eins og staðan er og ekki erlendis sbr. eftirfarandi (Seðlabanki Íslands, staða lífeyrissjóðanna febrúar 2009):
  • Innlendir verðbréfasjóðir:113 m.a. (55,4%)
  • Erlendir verðbréfasjóðir: 91 m.a. (44,6%)
  • Innlendir hlutabréfasjóðir: 5 m.a. (2,5%)
  • Innlendir hlutabréfasjóðir: 207 m.a. (97,5%)
  • Innlend hlutabréf: 26 m.a. (29,5%)
  • Erlend hlutabréf: 62 m.a. (70,5%)
Þetta gerir samtals:
 
Innlend verðbréf með breytilegum tekjum: 144 m.a. (28,5%)
Erlend verðbréf með breytilegum tekjum: 360 m.a. (71,5%)
 
report2006_05_843272.pngHvers vegna eru íslenskir lífeyrissjóðir að efla atvinnulíf erlendis? Ég vil fá þessa 360 m.a. inn í íslenskt atvinnulíf og nýta við að auka eigið fé fyrirtækja í vandræðum. Upphæðin er ekki stór miðað við skuldsetningu fyrirtækja svo henni þarf að ráðstafa rétt, en hún dugar fyrir afborgunum lána næstu mánuði hjá völdum félögum og getur hægt eða jafnvel stöðvað atvinnuleysi og orðið hvati að endurreisn atvinnuveganna. Fyrir þessa upphæð er hægt að gera álver í Helguvík eða á Bakka að raunveruleika og snúa atvinnuleysisþróuninni við á augabragði. Það eitt gerir að verkum að greiðsluerfiðleikar hverfa og tiltrú erlendra aðila á krónunni eykst. Hver hefur ekki trú á hagkerfi sem snýr sér út því að vera verst stadda hagkerfi Evrópu yfir í það sem sigraði kreppuna fyrst? Þessi aðgerð er að mínu mati fljótasta leiðin út úr þessar kreppu, en til þess að beita henni þarf kjark og áræðni.
 
Vil taka fram að 360 m.a. jafngildir 31,6% af hreinni eign lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris, svo lífeyrir mun skerðast tímabundið, en nú ríkir neyðarástand sem þarf að bregðast við af alefli. Tekjuskerðing sjóðanna og þjóðarbúsins, sé gjaldþrotahrinunni leyft að halda áfram, verður talsvert meiri. Við höfum hreinlega ekki efni á því að bíða.
 
Athugasemdir vel þegnar; lífeyrissjóðakerfið er ekki mín deild, en fyrirtækjarekstur og neytendamarkaður eru það.
 
Ítarlegri umfjöllun (á ensku að vísu): Turnaround is possible

mbl.is Hlutabréf lækkuðu á Wall Street
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins

Sent á viðskiptaráðuneyti 21 Jan 2009:

"Ég er nokkuð uggandi vegna yfirvofandi yfirtöku bankanna á fyrirtækjum landsins vegna þess að ég tel þeir gætu hugsanlega gengið of hart fram.  Mér finnst ráðlegt að Viðskiptaráðuneytið skipi fulltrúa til þess að fylgjast grannt með þeim málum og sé tengiliður á milli bankanna og stjórnvalda svo unnt sé að samstilla aðgerðir og sjá til þess að raunveruleg uppbygging eigi sér stað.

Það þarf að endurskipuleggja allt hagkerfið og fyrirtækin eru lykillinn að því."

 

Ég segi bara kominn tími til. Vona að Viðskiptaráðuneytið hafi viðbragðsáætlun tilbúna hvernig eigi að framkvæma þetta. Það er hægt að bjarga ótal fyrirtækjum sé haft eftirlit með starfsháttum bankanna og tryggja þannig áframhaldandi atvinnu. Það er ekki langt í það að hagkerfið taki aftur við sér (nema til komi greiðsluverkfall) og þá gengur ekki að hafa nær óstarfhæf fyrirtæki. Tel að hægt sé að afstýra þrotum með ýmusm aðgerðum.


mbl.is Gæti þurft umboðsmann skuldara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðið næsta skref vandlega

Eitt sem taka þarf til athugunar er hvaða áhrif þetta muni hafa.  Vissulega er ástandið slæmt og ágætt ef hægt væri að leysa þetta með einföldum aðgerðum.  Það er því miður ekki hægt.  Þegar útlánastofnun veitir lán myndast skuld á móti (eða skuld er þegar til staðar sem svo er veitt lán út á sbr. innlán og útlán).
 
Erlendu lánin byggja á erlendri lántöku, innlendu á sparifé; semsagt það er krafa á lánastofnun á móti lánveitingu. Sé hætt að greiða af lánum fer íslenska bankakerfið alfarið á hliðina og við blasir allsherjarhrun. Þeir sem hafa í hyggju að fara þessa leið eru að steypa öllum beint á hvolf, ættingjum, vinum, samstarfsaðilum, afkomendum o.s.frv. Þetta er hættulegasta aðgerð sem hægt er að fara í og séu afleiðingar hennar bornar saman við ástandið nú má núverandi stöðu við góðæri.
 
Ég ætla ekkert að skafa utan af hlutunum, málið er of hættulegt:
 
Hugsanlegar afleiðingar
  • Sparnaður sparifjáreigenda glatast eða ...
  • ... ábyrgð ríkisins setur ríkissjóð á hliðina.
  • Lánalínur lokast alveg.
  • Fyrirtæki kollsteypast.
  • Atvinnuleysi rýkur upp.
  • Krónan fer í frjálst fall.
  • Óðaverðbólga heldur innreið sína.
  • Fasteignaverð hrynur niður í ekkert.
 
Aðrar afleiðingar eru þær að ímynd Íslands verður hræðileg sem eyðileggur framtíðar uppbyggingu og gerir að verkum að slæmt er að vera Íslendingur. Traust á landi og þjóð fer niður í ekkert.
 
Fari svo að takist að koma í veg fyrir ofangreindar afleiðingar, þá er afar líklegt að þeir sem geta greitt greitt af lánum en gera það ekki lendi í verulegum erfiðleikum þegar hagkerfið réttir aftur úr sér. Þessir aðilar muni ekki geta:
 
  • fengið greiðslukort
  • fengið lán eða fyrirgreiðslur
  • eignast fasteignir
  • stofnað fyrirtæki
 
Framtíðarhorfunar verða því fremur dökkar.  Auk þess mun þetta setja takmarkanir á atvinnutækifæri erlendis þar sem t.a.m. Kaninn tekur hart á þessum hlutum:
 
Sýnishorn af ráðningarsamningi
"Federal, state and self-regulatory organizations require that background checks be conducted in the financial services (i.e., securities, futures, foreign currencies) industry to determine whether or not an individual is statutorily disqualified to work in the financial services industry."
 
"Within the past 10 years, have you made a compromise with creditors, filed a bankruptcy petition or been the subject of an involuntary bankruptcy petition?"
 
Mér sýnist greiðsluverkfall vera skammsýn aðgerð sem fyrst og fremst muni bitna á þátttakendum. Hagkerfið mun rétta úr sér aftur (nema fjármálakerfið hrynji alveg í kjölfarið) og aðilar sem taka þátt í þessari aðgerð geta komið sér í verri stöðu en í dag. Sé til tími að bíta á jaxlinn og berjast fyrir framtíðinni þá er það núna.  Þetta á ekki við um þá sem geta ekki greitt lengur; aðeins þá sem geta það en neita. Það er grundvallarmunur á þessu tvennu.  Hugleiðið því næsta skref vandlega.

mbl.is Margir íhuga greiðsluverkfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eignarhald innheimtufélaga

Skv. uppgjöri Landsbankans 2Q 2008 á bankinn 33,3% í Intrum. Nær væri að kanna hvort slíkt eignarhald sé enn til staðar.
 
Milliuppgjör 2008, bls. 32, Kafli 19: Investment in associates
 
Uppgjör hinna bankanna gefur slíkt ekki til kynna þó mig gruni sterklega að þeir séu á bakvið þau.
 
Þetta gerir að verkum að bankinn getur afskrifað lán en samt sem áður innheimt það að viðbættum innheimtukostnaði.  Ég ráðlegg fólki að kynna sér fyrningarreglur og hvernig kröfur eru endurnýjaðar. Það er hægt að endurvekja dauða kröfu með einu símtali, þess vegna "Ekki gera ekki neitt" slagorðið. Ef þú gerir ekki neitt er hugsanlegt að krafan falli niður. Ég mæli hvorki með einu né öðru; aðeins að fólk takist á við þetta með því að hafa samband við lögfræðinga og láta þá um málið.
 
Að flýja skuldir er síðasta úrræði; samt, geri það nægilega margir er kominn 'critical mass' sem örðugt getur reynst að eiga við þar sem hann getur vel orðið að stjórnmálaafli og gerbreytt stöðu mála.

mbl.is Flestir geta staðið í skilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er verðbólga ómarktæk?

"Miklu alvarlegra er þó að nefndin vinnur eftir röngum upplýsingum um verðbólguna,“ segir í Vísbendingu. Í rökstuðningi nefndarinnar sé miðað við tólf mánaða verðbólgu aftur í tímann í stað þess að miða við verðbólguna eins og hún er í dag. Skautað sé yfir þá staðreynd, eins og hún skipti engu, að vísitala neysluverð lækkaði í mars. Hlutverk nefndarinnar sé ekki að taka saman sögulegar upplýsingar heldur taka vaxtaákvörðun sem geti haft afgerandi áhrif á þróun efnahagslífsins um langa framtíð."
 
Man einhver þegar athugasemdir voru gerðar varðandi verðlagsmælingar?  Þá fól þáverandi viðskiptaráðherra Neytendastofu og Hagstofu að lagfæra ástandið.  Hægt er að vera með hlaupandi vísitölu sem tekur mið af magntölum, en slíkt gerir körfur Hagstofunnar óþarfar. Eftir fund með Neytendastofu var málið kæft og engin frekari viðbrögð þaðan þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir að ná tali af forsvarsmönnum Neytendastofu.
 
Sent á Neytendastofu 18.9.2007 (útdráttur)
[Þessi aðferðarfræði] gerir Neytendastofu kleift að hafa hlaupandi verðlagsvísitölu auk þess sem líkön byggð á grunnupplýsingum uppfærast í rauntíma.  Meðalgildi vöruverðs reiknast sjálfkrafa um leið og nýjar upplýsingar berast, sem veitir ekki aðeins dagsverð heldur verðsveiflu innan dags.  Nákvæmni rauntímamælinga á verðlagi er mun meiri en sé aðeins tekið tillit til dagsstöðu.
 
Samtök atvinnulífsins tóku betur í þetta, en verkefnið var því miður ekki á þeirra könnu, ellegar værum við hugsanlega í dag með rauntíma verðlagsmælingu. Þegar ekkert gekk að ná tali af Neytendastofu var haft beint samband við viðskiptaráðherra (sem vitað var að yrði tilgangslaust):
 
Sent á viðskiptaráherra 5.11.2007
"Neytendastofu [var] á fundi 23. ágúst kl. 13:30 [kynnt] tæknilega útfærslu á rafrænum neysluverðskönnunum.  Síðan hefur ekki heyrst neitt frá Neytendastofu, þrátt fyrir ítrekuð skilaboð."
 
Ekki sinnt frekar en endranær. Hvaða áhrif hefur þetta á skuldsett heimili og fyrirtæki?  Jú, hærri afborganir sem eiga ekki rétt á sér þar sem verðbólga er lægri en Hagstofan segir.  Ástæða: magntölur (semsagt breytingar í kauphegðun) koma ekki inn.  Svo aðilar sem eiga sök á afborgunum ykkar eru:
 
  • Hagstofa Íslands
  • Viðskiptaráðuneytið
  • Neytendastofa
 
Ég get ekki beðið eftir að opnað verði fyrir persónukjör.  Er alvarlega að velta fyrir mér að stíga fram og sjá til þess að hreinsað verði út úr bæði opinberum stofnunum og fjármálafyrirtækjum. Í dag eru Íslendingar að greiða of háar afborganir af lánum eingöngu vegna þess að aðilar sem starfa eiga fyrir fólkið gera það ekki.  Ég tel að verðbólga sé allt að því 5% lægri en karfa Hagstofunnar segir til um og er það varlega áætlað. Rauntímamæling með samtengingu kassakerfa gerir eftirfarandi óþarft með öllu:
 
Þessi aðferðarfræði var ágæt áður en háhraðanet komu til sögunnar og er fullkomlega úrelt.
 
Aftur úrelt aðferðarfræði.  Var ekki verið að tala um að draga saman í ríkisútgjöldum?  Besta leiðin til þess er að uppfæra tæknistig stofnana sem sjá um svona rannsóknir. Vek athygli á að rannsóknin var gerð fyrir 2007 - tveimur árum fyrir hrun - en gefin út 10. desember 2008! Tilvitnun úr þessu skjali:
 
"Megintilgangur rannsóknar á útgjöldum heimilanna er að afla upplýsinga sem notaðar eru til að útbúa útgjaldagrunn fyrir vísitölu neysluverðs. Neysluverðsvísitalan hefur mikla þýðingu í efnahagslífinu. Hún er helsti mælikvarði á verðbólgu og er notuð til að reikna út kaupmátt o.fl. Hún er auk þess notuð til að verðtryggja fjárskuldbindingar. Útgjaldasafnið sem vísitalan nær yfir tekur til þeirra útgjalda sem snerta heimilisrekstur og daglegt líf fólks. Til þess að meta áhrif einstakra verðbreytinga á hækkun vísitölunnar þarf upplýsingar um hve mikið vægi hver vara og þjónusta hefur í útgjöldum heimilanna. Þær upplýsingar fást úr rannsókn á útgjöldum heimilanna. Niðurstöðurnar eru einnig notaðar við önnur verkefni svo sem hag- og markaðsrannsóknir."
 
Mesta furða að Hagstofan skuli ekki nota hamar og meitil eins og gert var í denn. Skv. skjalinu eyðir meðalheimili 725.000 í ferðalög og flutninga, 558.000 í tómstundir og menningu, og 209.000 í fatnað.  Þessar tölur eru notaðar við verðbólgumælinguna sem er alveg út af kortinu.
 
VNV eins og hún er mæld í dag er því ómarktæk þar sem hún tekur ekki inn neyslumynsturbreytingu um leið og hún á sér stað.  Ef fólk vill stunda friðsamleg mótmæli einhversstaðar, þá mæli ég með Borgartúni 21a.  Hagstofan stuðlar að því að heimili og fyrirtæki eru að fara í þrot því hún vinnur of hægt og þverskallast við að koma sér í nútímann.

mbl.is Ófagleg ákvörðun um vexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Snorri Hrafn Guðmundsson
Snorri Hrafn Guðmundsson
MBA í markaðsfræðum og greiningum frá Suffolk University, Boston (1997).

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband